Illugi hissa: „þetta finnst mér mjög skrýtið“

Katrín Jakobsdóttir mun ekki taka á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna þegar hann kemur hingað í næsta mánuði. Þór Whitehead, prófessor emeritus í sagnfræði segir í samtali við Vísi að slíkt sé nær fordæmalaust þegar leiðtogar erlendra ríkja koma í opinbera heimsókn til Íslands. Hafa margir furðað sig á að Katrín ætli ekki að vera á landinu en hún verður í ræðumaður á þingi Norrænu verkalýðssamtakanna á þeim tíma sem varaforsetinn verður hér á landi í opinberri heimsókn. Einn af þeim sem gagnrýnir Katrínu er rithöfundurinn Illugi Jökulsson.

„Þetta finnst mér mjög skrýtið, og raunar billegt. Ég hefði vissulega kosið að við værum ekkert að bjóða Pence í heimsókn, en fyrst hann er nú að koma, þá er furðulegt að nota ekki tækifærið til að setja fram sín sjónarmið við hann um kvenfrelsi, hlýnun jarðar og fleira,“ segir Illugi og bætir við að það sé „voða þægilegt“ að hitta eingöngu þá sem eru meira og minna sammála manni um allt.

„ ... heyra fréttamenn og stjórnmálaskýrendur froðufella af hrifningu yfir því hvað maður nær voða voða voða góðu sambandi við Angelu Merkel en ég hefði haldið að það væri merki um sannan stjórnmálaleiðtoga að þora að tala við þann sem er manni ósammála, en ekki eintóma viðhlæjendur,“ segir Illugi og bætir við:

„Það hefur aldrei verið smart að vera ekki heima þegar óþægilega gesti ber að garði.“

Þá segir Illugi á öðrum stað: „Að tala við Angelu Merkel um kvenfrelsi er örugglega mjög huggulegt, en ekki mjög erfitt. Að tala við Mike Pence (með Trump á bakinu) um það efni væri örugglega töluvert erfiðara. En það er náttúrlega löngu komið í ljós að Katrín er ekki mikið fyrir að hafa erfitt.“