Ikea byggir blokkir í urriðaholti

Húsnæðisvandinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú varla farið framhjá neinum.

Leigu- og kaupverð er langt fyrir ofan endimörk alheimsins og fólk fær sting inn í merg við það eitt að hugsa sér að leigja 2ja herbergja íbúð, niðurgrafna með sameiginlegu þvottahúsi og engu bílastæði á 250 þúsund krónur á mánuði.  Fyrir 4ra mannafjölskyldu á meðallaunum er þetta því miður það sem í boði er. Blákaldur raunveruleiki alltof margra. 

 Stjórn IKEA gerir sér meira en grein fyrir vandanum, enda komin vel á leið með sniðugar lausnir. Maður fær kökk í hálsinn við að skoða hugsjónir þeirra og markmið. IKEA hefur hafið byggingu á 36 íbúða blokk í Urriðaholtinu til að mæta vanda starfsfólks síns sem hefur glímt við grjót á húsnæðismarkaðinum. Íbúðirnar eru fyrir starfsfólk Ikea fyrst og fremst, en Ikea hugsar ekki bara um sig og sína því starfsfólki Costco gefst einnig færi á íbúð, námsmönnum og einnig fara nokkrar íbúðir á hinn almenna leigumarkað. 

Íbúðirnar verða litlar en einkar vel skipulagðar eða frá 25m2 - 60m2 á fallegum reit í Urriðaholtinu í göngufæri við alla helstu þjónustu. Leiguverðið á minnstu íbúðunum er áætlað að verði undir 100 þúsund krónum á mánuði og er það tala sem ekki sést á leigumarkaðinum í dag. - Vissulega er fermeterinn á rúmar 4000 kr sem er ekkert svo langt frá því sem fermertraverði sem er í gangi núna. En hins vegar þá er ekkert framboð af smáíbúðum, hvað þá splunkunýjum og huggulegum ?

\"\"

Ég hef Pollýönnutrú á því að IKEA sé að ryðja torfarinn afleggjara og sá fræum í grýttan jarðveg einokunnar og græðgi. Ég vona að þeir nái með þessu að sýna fram á hve mikill skortur er á úrræðum fyrir fólk sem er að koma sér upp heimili og hefur ekki efni á 50 milljón króna blokkaríbúð í Hlíðunum. Ég vona og vona að þeir nái að smita stórlaxana í fasteignamarkaðinum af hagsýnum lausnum, ekki til gróða, heldur til leiða að eðlilegu samfélagi. Rúsínan í pylsuendanum er þó enn ekki sögð og ætlar Ikea greinilega að fá fálkaorðuna fyrir frábærleika sinn. Blokkin er fyrsta og eina íbúðarhúsnæðið á Íslandi sem fær Svansvottun þ.e.a.s umhverfisvæn bygging. Takk fyrir pent. 

\"\"

 

**Snædís**