Íhaldið og píratar

Ljóst er að hægri sinnuðum Íslendingum, hinum dæmigerðum íhaldsmönnum, er ekki skemmt. Mörgum hverjum, hið minnsta. Þeim þykir hreint ómögulegt að Pírati hafi fengið umboð frá forseta Íslands, umboð til að mynda ríkisstjórn.

Í hópi íhaldsmanna eru eflaust hlutfallslega fáir sem kusu Guðna Th. Jóhannesson í embætti forseta Íslands. Honum eru heldur ekki vandaðar kveðjurnar vegna þess að hann fól Birgittu Jónsdóttur það vandasama verk, verk sem aðrir hafa gefist upp á, það er að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Við lestur samfélagsmiðlanna ágætu er ljóst að íhaldsmönnum er nóg boðið. Þeir hafa, til þessa, ekki sparað stóru orðin þegar þeir tala um Pírata. Íhaldsmennirnir hafa tamið sér að tala niður til Pírata. Telja þá sýnilega vera asna sem skilji fátt.

Sannasti i leiðtogi eldri íhaldsmannanna er án nokkurs vafa Davíð Oddsson. Hann er ekki svo dómharður á ákvörðun forsetans, er bara óvenju penn:

„...á móti kemur að á Íslandi eru Píratar loks komnir með stjórnarmyndunarumboð. Tvennt er til. Að rakarastofuaðferðin sé í fullu gildi: Næsti, gjörið svo vel, eða að einhver trúi því að Birgitta sé líkleg til að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Er henni óskað alls hins besta.“ Þetta er úr Reykjavíkurbréfi 4.12. 2016.

Það eru eflaust mistök íhaldsmanna að gera lítið úr Pírtumm, flokki sem fékk helming á við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum í október.  27.449 Íslendingar kusu Pírata og þeir fengu tíu þingmenn kjörna. Píratar eru fjöldahreyfing. Og það sem meira er; Píratar eru engir asnar.