Iðnaðarmenn slíta viðræðum

Iðnaðarmenn slitu kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins fyrir hádegi í dag. Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna, segir að nú hefjist undirbúningur verkfallsaðgerða. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir stöðuna vera orðna grafalvarlega. RÚV.is greinir frá.

„Við mátum bara hvernig staðan er fram undan hjá okkur og það var niðurstaðan að það var bókaður árangurslaus fundur hjá sáttasemjara. Það þýðir að viðræður slitna á þessum tímapunkti,“ segir Kristján Þórður í samtali við RÚV. Næstu skref verða að heyra í félagsmönnum og undirbúa verkfallsaðgerðir.

„Staðan er auðvitað orðin grafalvarleg og það er öllum augljóst sem með þessu fylgjast að við þurfum að ná lendingu í þetta mál á breiðum grunni gagnvart öllum almenna vinnumarkaðnum á tiltölulega skömmum tíma ef ekki á illa að fara,“ segir Halldór Benjamín í samtali við RÚV.