Icelandair tapaði 6,6 milljörðum í fyrra

Tap af rekstri Icelandair nam 6,6 milljörðum króna á síðasta ári. Það var því rúmlega tíu milljarða króna sveifla á rekstri félagsins milli ára því Icelandair var rekið með 4,5 milljarða króna hagnaði árið 2017. Engu að síður jukust heildartekjur félagsins um 7 prósent á síðasta ári og námu 1.555 milljónum dollara. 
 

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að árið 2018 hafi verið erfitt rekstrarár. „Rekstarniðurstaðan var mun lakari en lagt var upp með í byrjun árs og endurspeglar harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs.“ Bogi segir ljóst að áfram ríki óvissa í rekstrarumhverfi félagsins auk þess sem breytingar eigi sér stað í samkeppnisumhverfinu. Fjárhagsstaða félagsins sé engu að síður sterk. 

Á ýmsu gekk í rekstri Icelandair á síðasta ári. Félagið neyddist til að segja upp á þriðja tug starfsmanna í september en uppsagnirnar voru sagðar hluti af hagræðingaraðgerðum.  í júlí sendi félagið frá sér afkomuviðvörun og í lok ágúst hætti Björgólfur Jóhannsson sem forstjóri félagsins. Björgólfur sagðist vilja með þessari ákvörðun sinni axla ábyrgð þar sem ákvarðanir hans sem forstjóri hefðu valdið félaginu fjárhagslegu tjóni.