Íbúðalánasjóður úthlutar yfir þremur milljörðum til að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða

Íbúðalánasjóður úthlutaði í dag 3,2 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á sjötta hundrað leiguíbúðum víðsvegar um landið. Leiguíbúðirnar verða í 15 sveitarfélögum en þorri þeirra verður á höfuðborgarsvæðinu. Fjármunirnir eru hugsaðir til að styðja við framboð ódýrra leiguíbúða fyrir almenning og verða nýttir til byggingar á 410 íbúðum og kaupa á 121 íbúð.

Milljarðarnir þrír eru svokölluð stofnframlög ríkisins sem renna til byggingaraðila í almenna íbúðakerfinu. Hugmyndin er að fólk sem leigir íbúð í kerfinu verji talsvert minna af ráðstöfunartekjum heimilisins til húsnæðis og losni við það óöryggi sem fylgir því að leigja á frjálsa leigumarkaðnum. Nú þegar hafa um þúsund manns flutt í slíkar íbúðir og þessir íbúar munu geta dvalið í þeim svo lengi sem tekjur og eignir heimilisins eru undir viðmiðunarmörkum almenna íbúðakerfisins. Vegna mikillar eftirspurnar ákvað ríkisstjórnin, að tillögu félagsmálaráðherra, að auka framlögin til almenna íbúðakerfi fyrr á þessu ári. Þá verða framlög næsta árs einnig aukin um 2,1 milljarð og verða því um 3,8 milljarðar í heildina á árinu 2020.

„Þessar ríflega 530 íbúðir sem verið var að úthluta til núna eru gríðarlega mikilvæg viðbót við almenna íbúðakerfið. Ég er ánægður með að ríkisstjórnin hafi samþykkt að setja aukið fjármagn í stofnframlögin. Í almenna íbúðakerfinu verða í framtíðinni þúsundir íbúða þar sem leiga er bæði lægri og húsnæðisöryggi meira en gengur og gerist. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að það séu ekki heimili í landinu á heljarþröm vegna hárrar leigu og öryggisleysis í húsnæðismálum. Fólk í slíkum aðstæðum gefst annars bara upp, flýr land eða hrökklast af vinnumarkaði, því launin fara öll í að hafa þak yfir höfuðið. Með því að mæta þessari grunnþörf fólks fyrir húsnæði við hæfi þá spörum við útgjöld og tekjutap á fjölmörgum öðrum sviðum. Flestir stjórnmálamenn eru sem betur fer farnir að skilja þetta,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.

Alls bárust Íbúðalánasjóði 49 umsóknir um samtals 6,3 milljarða króna en ríflega helmingur þeirra, eða 26 umsóknir, voru samþykktar ýmist að fullu eða að hluta til. Sveitarfélög nutu forgangs við úthlutunina og hlutu alls um 800 milljónir kr. Meðal þeirra sem fengu úthlutað nú var byggingafélagið Bjarg, sem er alls með um 1000 íbúðir í byggingu eða þróun. Bjarg hefur þegar hafið útleigu á 114 íbúðum þar sem heildaríbúafjöldinn er um 300 manns. Íbúðum Bjargs er úthlutað eftir því hvenær fólk skráði sig á biðlista hjá félaginu en það er í sameiginlegri eigu launþegasamtakanna ASÍ og BSRB.

Sístækkandi hópur mun geta nýtt sér þennan hagkvæma kost á húsnæðismarkaði á næstunni en á síðustu þremur árum hefur Íbúðalánasjóður úthlutað fyrir hönd ríkissjóðs um 11,7 milljörðum króna í stofnframlög til byggingar og kaupa á rúmlega 2.100 íbúðum. Með byggingu fjölda nýrra hagkvæmra leiguíbúða er ætlunin að slá á þann mikla húsnæðisvanda sem lægri og millitekjuhópar hafa mátt stríða við að undanförnu. Þessi nýja húsnæðislausn felur í sér að félagasamtök, sveitarfélög og lögaðilar sem uppfylla ákveðin skilyrði fá fjárhagslegan stuðning ríkis og sveitarfélaga til að standa að uppbyggingu leiguhúsnæðis.

Sveitarfélögin sem fá úthlutað að þessu sinni eru Akraneskaupstaður, Akureyrarbær, Borgarfjarðarhreppur, Dalabyggð, Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Húnaþing vestra, Reykhólahreppur, Reykjanesbær, Reykjavíkurborg, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Ölfus, Tálknafjarðarhreppur, Vopnafjarðarhreppur og Þingeyjarsveit. Af íbúðunum 531 eru flestar á höfuðborgarsvæðinu, eða 452. Tíu íbúðir eru á Austurlandi, 18 á Norðurlandi eystra, 6 á Norðurlandi vestra, 4 á Suðurlandi, 13 á Suðurnesjum, 15 á Vestfjörðum og 13 á Vesturlandi.