Fáir kusu og 45 prósent skiluðu auðu

Næstum helmingur skilaði auðu í síðari hluta atkvæðagreiðslu um nafn á sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis. Þessi dapurlega niðurstaða var kynnt í golfskálanum í Sandgerði í hádeginu. Áhuginn á þátttöku var líka dræmur, aðeins 500 af 2692 á kjörskrá greiddu tillögunum sem lágu fyrir um nýtt nafn atkvæði, eða 18,6%.

Nöfn sem áður höfðu fengið mestan hljómgrunn meðal íbúa voru útlikokuð í atkvæðagreiðslunni. Þetta voru nöfn eins og Suðurnesjabyggð, Suðurnesjabær eða Sveitarfélagið Suðurnes. Nágrannasveitarfélög höfðu sett sig upp á móti þeim nafngiftum og þau þóttu heldur ekki í samræmi við leiðbeiningar Örnefnanefndar.

Tvö óneitanlega litlaus nöfn fengu flest atkvæði í þessari síðari atkvæðagreiðslu, Heiðarbyggð, sem fékk 176 atkvæði og Suðurbyggð 100 atkvæði. Önnur nöfn sem greidd voru atkvæði um notu minni vinsælda. Það voru nöfnin Útnesjabyggð, sem Örnefnanefnd mælti með, Nesjabyggð og Ystabyggð.

Niðurstöður rafrænu atkvæðagreiðslunnar eru ráðgefandi. Bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags sem tekur við eftir sveitarstjórnarkosningar í vor ákveður síðan hvort farið veður eftir niðurstöðunum.

Nánar hér, á vef Víkurfrétta.