Í uppreisn gegn náttúrunni

Rætt um seinkun klukkunnar í 21 í kvöld:

Í uppreisn gegn náttúrunni

Þór Jakobsson veðurfræðingur
Þór Jakobsson veðurfræðingur

Þór Jakobsson veðurfræðingur er gestur Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann mögulega breytingu á tímareikningi hér á landi, en undanfarið hefur verið rætt hvort seinka eigi klukkunni um eina klukkustund og sitt sýnist hverjum um það.

Þór ræðir þetta mál út frá undirgrein veðurfræðinnar er kallast lífveðurfræði, sem hann segir reyndar vera full víðtæka til að tilheyra veðurfræðinni. Lífveðurfræði fjalli um lífsskilyrði manna, dýra og gróðurs og hvernig lífverurnar bregðist við breytingum á ytri aðstæðum.

Hann er á því að rétt væri að seinka klukkunni um eina klukkustund, sem gæti bætt árangur nemenda í námi og framleiðni við störf. „Mér finnst það vera mjög sannfærandi rök fyrir því að breyta þessu, að fara yfir í það sem ég kalla réttan tíma, þannig að það verði þá leiðrétt um þennan klukkutíma.“

Rannsóknir hafa sýnt fram á að eiginlegt hádegi hér á landi sé í rauninni klukkan hálf tvö og skekkjan á tímabelti Íslands því hálfur annar klukkutími. Íslendingar fylgi því ekki sólinni. „Það sem mér finnst vera mest sannfærandi núna eru rannsóknir íslenskra vísindamanna á svefnvenjum, og [þeir] finna það út að fjórðungur þjóðarinnar sefur minna en sex tíma og að það gæti stafað af þessu að við förum ekki alveg eftir sólinni í sambandi við það hvenær við vöknum og hvenær við förum að sofa,“ segir Þór.

„Við höldum að við getum óhlýðnast sólinni sem stjórnar þessu öllu þegar til kemur. Þróunin hefur verið eftir aðstæðunum og þar á meðal er sólargangurinn og árstíðirnar líka. Þannig að það má segja að við séum í uppreisn gegn náttúrunni með því að hafa misstillta klukku,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við Þór í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast