Í mér eru margir menn

Það búa í mér margir menn, þar á meðal rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn sem fara iðulega í fýlu, hvor út í annan, ef þeim finnst þeir ekki fá þá athygli sem þeir vilja og heimta.

Þetta meinar Hallgrímur Helgason, einn mikilvirkasti og áhrifamesti listamaður þjóðarinnar sem fer mikinn og nýtur sín rækilega í stórskemmtilegu viðtali við Sigmund Erni í Mannmáli kvöldsins á Hringbraut, en þar veður hann um víðan völl í persónulegu og einlægu spjalli um líf sitt og list.

Hann var rólegt barn, nánast fullkomið til orðs og æðis, en leitaði svo út á listabrautina, kannski af genatískum ástæðum og varð á endanum jafn mikill rithöfundur og hann er myndlistarmaður - og það er áheyrilegt að hlusta á hann rifja upp fátæktarbaslið á árunum í New York og París þegar hann vissi upp á hár hvað ódýrasta súpudósin kostaði í dölum og frönkum - og hvernig hann dró fram lífið með dálkaskrifum í Þjóðviljanum sáluga sem vöktu smám saman athygli fyrir stílgáfu, kímni og ríkulegt inntak.

Og hann talar auðvitað um nýjustu og tíundu skáldsögu sína sem kemur út í dag, Sextíu kíló af sólskini, en titillinn kom til hans í draumi - og sagan at arna er mikil að vöxtum, þriggja ára vinna, skemmtilega laxnesk í sjálfu sér og geymir einstaklega trúverðuga og sanna lýsingu á íslenskri þjóð sem er í þann mund að slíta af sér fátæktarhlekkina, studd galleríi af heillandi sögupersónum, breyskum og misjafnlega boðlegum.

Hann talar líka persónulega um einkalífið, hvernig það hefur verið að eignast börnin fjögur, jafnt hans sem annarra, sem ungur maður og gamall - og svo geta áhorfendur líka beðið eftir því með spenningi hvernig hann minnist einkafundar síns með Davíð Oddssyni í Stjórnarráðinu þegar bláa höndin tók hann á beinið, skrýtinnar minningar.

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.