Hvor segir ósatt? og hefur eyþór eitthvað að fela? „ég er engum háður“

Borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, Eyþór Arnalds sem einnig er fjárfestir keypti hlutabréf í Morgunblaðinu með 325 milljóna króna kúluláni. Í Stundinni er greint frá því að seljandi bréfanna var eignarhaldsfélagið Kattarnef ehf sem er í eigu Samherja. Í ársreikningi þess félag kemur fram að félagið hafi veitt kaupanda bréfanna seljendalán upp á 225 milljónir. Þá keypti Eyþór hlutabréf í eigu Síldarvinnslunnar og Vísis í Grindavík í Mogganum.

Í Stundinni segir að í ársreikningi eignarhaldsfélags Eyþórs sem heldur utan um hlutabréfin, Ramses II. ehf., sem skilaði ársreikningi fyrir 2017 í maí 2019 nærri ári of seint, kemur hins vegar fram að félagið skuldi „lánastofnunum“ 325 milljónir og að allar þessar skuldir séu á gjalddaga árið 2020. 15 milljóna vaxtagjöld bættust við skuldina árið 2017 og stóð skuldin í lok þess árs í rúmlega 340 milljónum króna. Slík kúlulán, með einum gjalddaga í lok lánstíma, eru ekki eins fjárhagslega íþyngjandi fyrir lánþega og lán með mörgum vaxtagjalddögum á lánstímanum. 

Þá kemur það jafnframt fram í Stundinni að báðir ársreikningarnir, bæði Ramsesar II ehf. og Kattarrnefs ehf., eru óendurskoðaðir og þar af leiðandi ekki staðfestir eða viðurkenndir af endurskoðendum.

Eyþór hefur aldrei viljað upplýsa um hvernig hann fjármagnaði og keypti 23 prósenta hlut í Morgunblaðinu. Hefur Eyþór aðeins tjáð sig við RÚV og sagt kaupin trúnaðarmál. Þá segir í Stundinni að útskýringar Eyþórs séu á skjön við þær skýringar sem hann gaf Stundinni í viðtali fyrir um ári síðan. Eyþór sagði:

 „Þetta eru alvöru, sjálfstæð viðskipti og verðið er trúnaðarmál. Samherji seldi þessi hlutabréf og ég er ekki skuldbundinn þeim með nokkrum hætti í kjölfarið.  Ég er engum háður […] Ég er með alls konar fjárfestingar í gangi og reyni að fjármagna þær með eins skynsamlegum hætti og ég get. Ég er með þetta í sérstöku félagi til að dreifa áhættunni. Ég vil ekki fara út í það í smáatriðum hvernig ég fjármagna þetta en Ramses er með góða eiginfjárstöðu og það stendur á bak við þessa fjárfestingu.“ 

Þá bendir Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður Stundarinnar á að eina mögulega niðurstaðan í því misræmi sem er á milli upplýsinganna í ársreikningi Samherja og í ársreikningi Eyþórs er að annar hvor aðilinn segi ekki satt um viðskiptin í þeim gögnum sem um ræðir. Ingi Freyr skrifar:

„Annaðhvort veitti Samherji Eyþóri seljendalán upp á 325 milljónir eða þá að Eyþór tók bankalán, lán hjá lánastofnun, fyrir hlutabréfunum. Afar hæpið er að hægt sé að skilgreina Samherja og dótturfélag þess sem lánastofnun eða -stofnanir þannig að frekar ólíklegt er að báðir .“

Ítarlega er fjallað um málið á vef Stundarinnar.