Hvetur andra snæ til að hætta við

Einn kunnasti ritstjóri landsins, Jónas Kristjánsson, biður Andra Snæ Magnason forsetaframbjóðanda að velta fyrir sér hvort hann ætti að drag eigið framboð til baka í því skyni að auka líkurnar á sigri Guðna TH, fari það svo í dag að Guðni tilkynni eigið framboð eins og flestir búast við.

Þetta kemur fram í pistli sem Jónas hefur birt á jonas.is. Áður hafði Jónas lýst ánægju með framboð Andra Snæs en herfræðileg rök, leikjafræðileg rök eða strategísk rök eins og þau eru stundum nefnd, verða til þess að Jónas varpar því fram hvort það gæti haft útslitaáhrif í baráttunni um Bessastaði ef Andri Snær stígur til hliðar.

Eitt helsta baráttumál Andra Snæs eru lýðræðislegar breytingar, að stjórnarskránni verði breytt. Ólafur Ragnar hefur margoft varað við slíkum breytingum en Guðni Th. er talinn standa milli þessara tveggja í afstöðu til breytinga.

Jónas Kristjánsson skrifar: \"Reynist skoðanakönnun Frjálsrar verslunar rétt, markar hún þáttaskil í slagnum um forsetaembættið. Fáist svipuð útkoma frá ábyrgum og viðurkenndum aðila, þarf að hlusta á upplýsingarnar. Könnunin bendir til, að Guðni Th. Jóhannesson eigi möguleika á að leggja Ólaf Ragnar Grímsson. Andri Snær Magnason er hins vegar með mun minna fylgi, þótt allir þrír skari fram úr öðrum. Þá kæmi sterklega til álita, að Andri Snær dragi sig til baka til að efla líkur Guðna.\"

Í könnun FV kom fram að Andri taki fylgi frá Guðna en mjótt gæti orðið á munum ef einvígi færi fram milli Ólafs Ragnars og Guðna.

Um Guðna segir Jónas: \"Hann er álitinn eins konar miðjumaður, sem flestir sætta sig við. Að vísu á hann eftir að tjá sig um stórpólitísk mál. En Andri Snær er talinn of róttækur og Ólafur Ragnar dinglar í snöru skrautlegrar tækifærastefnu.\"