Hvernig fólkið lifði og dó

Undanfarna áratugi hafa landsmenn lesið minningargreinar Morgunblaðsins og verið forvitið um lífshlaup viðkomandi, hverjir voru ættingjar og jú, úr hverju viðkomandi lést. Í greinunum má oft lesa sögu liðins tíma, fallegar og vel skrifaðar minningar af einlægni frá ættingjum og vinum. Jafnvel frumsamin ljóð – sem einu sinni mátti ekki hjá mogganum en má núna.

Mennskan birtist okkur í þessum greinum og ábyggilega í áhuga okkar á þeim líka.

Ég held að þegar allt kemur til alls sé okkur öllum verulega annt um samfélagið. Einstaklingshyggjan á ekki pláss í því mengi. Vegna forvitni má vera að fólk lesi minningargreinar en þegar allt kemur til alls er það þörfin fyrir að tilheyra, tilheyra öðrum og vita hvernig sá látni lifði sínu lífi.

Það má máske yfirfæra þetta á hug manna þegar kosningar eru í nánd. Sveitarstjórnarkosningar eru sterkasta myndbirtingin í því hvaða samfélag við kjósum að eiga og til að velja hvað er í boði. Í Sveitarstjórnarkosningum erum við að kjósa um hvernig við sjálf viljum hafa það og vonandi líka fjölskyldan í næstu götu.