Hvernig fer greiðslumat fram?

Sjöfn Þórðar heldur áfram með heilræði fyrir fasteignakaupendur. Að þessu sinni fer hún yfir hvernig greiðslumat fer fram.

Áður en ákveðið er að kaupa eign er mikilvægt að fara í greiðslumat til að vita hversu dýra eign þú ræður við að fjárfesta í áður en lengra er haldið. Fyrir fjárhagsafkomu þína og fjölskyldunnar skiptir meginmáli að þú ráðir vel við á næstu árum og jafnvel áratugum að greiða af láni sem þú verður að taka til þess að festa kaup á íbúð. Þess vegna skaltu láta það verða þitt fyrsta verk að leita til bankans þíns, lífeyrissjóðs eða annarrar lána­stofnunar og fá svokallað bráðabirgðagreiðslumat. Þú þarft þá að veita upplýsingar um tekjur, framfærslukostnað þinn eða fjölskyldunnar, rekstrarkostnað heimilisins, til dæmis kostnað vegna bíls ef þú átt hann og svo framvegis. Á grundvelli þessara upplýsinga færðu greiðslumat til bráðabirgða og þá geturðu áttað þig á hversu dýra eign þú getur skoðað með kaup í huga. Á heimasíðu banka og fleiri lánastofnana eru að finna reiknivélar þar sem þú getur fengið nokkra hugmynd um hvað þú ræður við að taka hátt lán miðað við gefnar forsendur. Vert er að nýta sér þessar reiknivélar og þá aðstoð sem boðið er uppá.