Hvergi til sparað við uppsetningu á Xanadu

Katrín Magnúsdóttir og Pétur Már Sigurðsson eru gestir í 21 í kvöld:

Hvergi til sparað við uppsetningu á Xanadu

„Nefndin og listrænir stjórnendur, Unnur Elísabet, Margrét Eir og Þóra Birgisdóttir, við vorum alltaf að pæla í Chicago eða Fame eða einhverju sem er svolítið þekkt. Svo komu þær með hugmynd að setja upp Xanadu og við vorum öll bara „Hvað er þetta?“ Vissum ekki neitt, ég reyndi að horfa á myndina og var bara „What? Vá hvað þetta er lélegt.“ En þær voru bara „Við gerum þetta geggjað“ og við vorum bara öll til í þetta,“ segir Katrín Magnúsdóttir, formaður nemendamótsnefndar Verzlunarskóla Íslands.

Katrín og Pétur Már Sigurðsson, forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands, eru gestir Björns Jóns Bragasonar í Menningunni í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld.

Nemendamótsnefndin setur á svið söngleikinn Xanadu, sem verður sýndur þann 20. febrúar næstkomandi í Háskólabíói. Hvergi er til sparað og gífurlegur fjöldi kemur að verkinu, eða um 150 manns. Þar á meðal eru 37 leikarar og dansarar.

„Ég held að mörg atvinnuleikhús gætu ekki ráðið við að borga öllu þessu fólki laun,“ segir Pétur Már aðspurður um hvort atvinnuleikhús á Íslandi gætu ráðið við svona stóra sýningu. Hann segir mikla reynslu á meðal leikaranna þrátt fyrir ungan aldur og að margir þeirra komi beint úr Borgarleikhúsinu, þar sem þeir hafi t.a.m. leikið í Bláa hnettinum og Billy Elliott.

Um Xanadu

 „Xanadu fjallar um Svenna Másson, sem er ungur listamaður sem týnir sér smá og trúir ekki ennþá á sjálfan sig. Svo kemur andagiftargyðja inn í líf hans, Kría, sem ákveður að gefa honum innblástur, en hún má ekki verða ástfangin af honum þar sem hún er guðleg. Svo flækjast hlutirnir,“ segir Katrín.

Hér má sjá brot af æfingu:

Katrín segir leikritið byggjast á söngleiknum fremur en samnefndri kvikmynd frá 1980, sem skartaði Oliviu Newton-John í aðalhlutverki og innihélt frumsamin lög Electric Light Orchestra (ELO). Það sé m.a. vegna þess að miklu fleiri karakterar séu í söngleiknum heldur en myndinni.

Annað brot af æfingu:

Nánar er rætt við Katrínu og Pétur Már í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Nýjast