Hverfisgatan opnuð í áföngum: opið fyrir gangandi á menningarnótt

Endurgerð Hverfisgötu milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs hefur tafist en gert er ráð fyrir að hleypa bílaumferð á götuna eftir miðjan september í stað lok ágústmánaðar. Til að byrja með verður það í aðra áttina og jafnframt verður opnað fyrir bílaumferð um gatnamót Hverfisgötu og Ingólfsstrætis.  Áfram verður unnið við gangstéttar og ýmsan frágang en vel merktar gönguleiðir verða jafnframt tryggðar á meðan framkvæmdum stendur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir enn fremur:

Þessa dagana er unnið við fráveitu og endurnýjun hitaveitulagna en stefnt er að því að fylla að þessum nýju lögnum í næstu viku eða fyrir Menningarnótt.  Gert er ráð fyrir að gatan verði opin fyrir gangandi á Menningarnótt á þjappaðri fyllingu. Stefnt er að malbikun upp úr mánaðarmótum en í framhaldi af því verður unnið við hellulögð svæði  fyrir framan Þjóðleikhúsið og á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis.

Gönguleiðir meðfram framkvæmdasvæðinu hafa verið og verða áfram opnar á framkvæmdatíma. Aðkomuleið að bílastæðahúsinu Traðarkoti  er opin og hefur henni verið haldið opinni á framkvæmdatímanum ( að frátöldum einum degi þegar tengja þurfti lagnir).