Hver verður landsliðsþjálfari?

Þær fréttir að Heimir Hallgrímsson ákvæði að hætta að þjálfa landsliðið komu mörgum á óvart. Þeir sem fylgjast vel með knattspyrnuheiminum eru þó ekki allir mjög hissa á því, enda var ljóst að ef hann héldi áfram hefði hann þegar upp væri staðið verið með liðið í heilan áratug. 

 

Þar fyrir utan virðist vera talsverð eftirspurn eftir kröftum Heimis frá aðilum sem hafa rýmri fjárráð en KSÍ, bæði frá félagsliðum og landssamböndum sem horfa til þess árangurs sem íslenska landsliðið hefur náð á undanförnum sjö árum.

 

En hver tekur við hinu góða búi sem landsliðið er? Ýmis nöfn hafa verið nefnd í þeim samkvæmisleik sem eðlilega er hafinn, en ekkert í fullri alvöru. Gambíturinn er sá að árangurinn sem náðst hefur er frábær og mikil áskorun fyrir hvaða þjálfara sem er að viðhalda honum á sama tíma og KSÍ hefur takmarkaðar bjargir til að greiða þau laun sem tíðkast á hinum stóra velli heimsnkattspyrnunnar. 

 

Spurningin er hvort einhver erlendur þjálfari fæst til að taka áhættuna á því að halda áfram með liðið á þessum forsendum, eða hvort leitað verður til innlends aðila.