Hvar ætlar Ísland að vera?

Hvar ætlar Ísland að vera?

 

Það hafa orðið snögg veðrabrigði í alþjóðastjórnmálum. Í tvo áratugi hefur verið nokkuð breið samstaða um alþjóðavæðinguna. Nú vex þeim flokkum aftur á móti hratt ásmegin bæði í Bandaríkjunum og Evrópu sem tala fyrir landamærahindrunum sem snúa að vörum og þjónustu jafnt sem fólki.

Í Bandaríkjunum tefla Repúblikanar, sem lengi hafa verið flokkur atvinnulífsins, fram einangrunarsinna og popúlista í forsetakosningum. Frambjóðandi Demókrata sem verið hefur ákveðin talskona fyrir alþjóðasamningum um afnám viðskiptahindrana hefur dregið í land með þau sjónarmið.

Bretar hafa ekki í orði kveðnu snúið baki við stefnu sinni um frjálsari alþjóðaviðskipti. Þeir hafa hins vegar í verki ákveðið að yfirgefa innri markað Evrópusambandsins. Þó þeim takist smám saman að bæta viðskiptastöðu sína á ný getur enginn sagt fyrir um það nú hvenær eða hvort þeir geta náð sömu stöðu og áður með nýjum samningum.

Þjóðfylkingin í Frakklandi er til alls líkleg í næstu kosningum. Einangrunarsinnar í Þýskalandi styrkja einnig stöðu sína. Svipuð þróun á sér stað í fleiri ríkjum Evrópusambandsins.

Í Bandaríkjunum og Evrópu fer nú fram hugmyndafræðilegt uppgjör. Á annað borðið róa  þeir sem vilja bæta efnahag þjóða sinna með því að ganga lengra í að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi eða að minnsta kosti að verja þá stöðu sem er.  Á hitt borðið róa þeir sem telja að frekari lokun landamæra bæði gagnvart fólki og viðskiptum þjóni hagsmunum almennings best.

Eins og afstaða ríkisstjórnarflokkanna birtist í orðræðu forystumanna þeirra er hún mjög einföld. Þeir segja sem svo: Það eru vandræði í Evrópu. Þess vegna er ekki á dagskrá að ræða hvort æskilegt er fyrir Ísland að dýpka erlent samstarf.

Með velvilja má segja að ríkisstjórn Íslands sé hlutlaus í þeim átökum sem nú eiga sér stað milli þeirra sem styðja alþjóðasamninga og bandalög þjóða um frjáls viðskipti og hinna sem fylgja einangrunarstefnu. Eftir nýjustu skoðanakönnunum fengju stjórnarflokkarnir um þriðjung atkvæða.

Viðreisn, Samfylkingin og Björt framtíð eru þeir flokkar sem helst tala gegn einangrunarstefnunni. Skoðanakannanir benda til að þessir þrír flokkar gætu fengið um fjórðung atkvæða.

VG er á svipaðri línu og stjórnarflokkarnir. Öndvert við þá styðja þau eigi að síður að þjóðin fái að ákveða hvort framhald verður á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.  Sama á við um Pírata. En enginn veit á hinn bóginn hvort þeir fylgja einangrunarstefnu eða fríverslunarstefnu. Þessir tveir flokkar gætu fengið rúmlega þriðjung atkvæða.

Samkvæmt þessu ætti ríflegur meirihluti Alþingis á næsta kjörtímabili að styðja þjóðaratkvæði um framhaldið gagnvart Evrópusambandinu. En hitt er miklu óljósara hvort unnt er að mynda meirihluta um skýra stefnu um það hvar Ísland ætlar að skipa sér í sveit í þeim hugmyndafræðilegu átökum sem nú fara fram í Evrópu og Bandaríkjunum.

Þjóðernispopúlistar hafa aukið áhrif sín á Norðurlöndum. Eigi að síður bendir flest til að ríkisstjórnir þeirra muni taka skýra afstöðu gegn einangrunarstefnu í viðskiptum og standa vörð um innri markað Evrópusambandsins. Eðlilegt væri að Ísland tæki sömu hugmyndafræðilegu afstöðu og ríkisstjórnir Norðurlanda.

Óvissa um það hvar Íslands stendur að þessu leyti styrkir ekki stöðu landsins. Þess vegna er mikilvægt að draga utanríkismálin meir inn í kosningabaráttuna og þá alveg sérstaklega hvaða afstöðu einstakir flokkar taka til þeirrar hugmyndabaráttu sem nú á sér stað í okkar heimshluta.

 

Nýjast