Hvað varð um 170 milljónirnar sem runnu til fh?

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar gagnrýna harðlega málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika, á svæði Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Í yfirlýsingu frá fulltrúum flokkanna segir meðal annars:

„Vert er að taka fram að enn hefur ekki verið sýnt fram á í hvað 170 milljónir sem greiddar hafa verið til FH hafa farið og fyrirspurnum okkar frá því í ágúst hefur ekki öllum verið svarað með fullnægjandi hætti. Það er skylda okkar sem kjörinna fulltrúa að fylgjast grannt með fjármálum sveitarfélagsins og höfum við því tekið ákvörðun um að leita liðsinnis Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til að knýja á um svör.“

Yfirlýsing fulltrúanna sem send var til fjölmiðla er svohljóðandi:

Málsmeðferð varðandi uppbyggingu í Kaplakrika einkennst af flýti, upplýsingaskorti, samráðsleysi og eftiráskýringum.

Úrskurður heilbrigðisráðherra staðfestir að málsmeðferð meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar gefi tilefni til að málið verði tekið til nánari skoðunar á grundvelli 112 gr. sveitarstjórnalaga sem kveða á um frumkvæðisathugun.

Í því felst að rökstuðningur Hafnarfjarðarbæjar og andmæli við kærum bæjarfulltrúa í minnihluta er ekki nægjanlegur til að fella málin niður.

Vert er að taka fram að enn hefur ekki verið sýnt fram á í hvað 170 milljónir sem greiddar hafa verið til FH hafa farið og fyrirspurnum okkar frá því í ágúst hefur ekki öllum verið svarað með fullnægjandi hætti. Það er skylda okkar sem kjörinna fulltrúa að fylgjast grannt með fjármálum sveitarfélagsins og höfum við því tekið ákvörðun um að leita liðsinnis Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til að knýja á um svör.