Hvað er að vera tryggður?

Það er ótrúlega oft spurt út í bláinn í umræðum milli manna ertu tryggður?  Það er eins og að spyrja áttu vatn eða salt heima hjá þér í eldhúsinu eða eitthvað svipað.  Líklega er svarið í flestum tilfellum já, en svarar það spurningunni?  Ég á salt til að setja í grautinn en ég á ekki nógu mikið til að salta bílaplanið þar sem ég legg bílnum mínum.  Spurningin er ekki hvort ég eigi það heldur hvort ég eigi salt fyrir ákveðið verkefni.

Ég hef staðið starfsmenn bankana að því að spyrja fyrirtæki áður en þau taka lán, hvort þau séu vátryggð.  Ég minnist þess ekki að spurt hafi verið hvernig og fyrir hverju.  Það er stór munur á þessu tvennu.  Í fræðunum þá eru miklar vangaveltur um það ef fyrirtæki lendir í tjóni, eins og bruna, hversu sterklega það getur staðið af sér slíkar hremmingar.  Fræðingar reikna líkindi og hafa fundið út að fyrirtæki án réttra vátrygginga hefur innan við 20% möguleika á að halda sjó eftir bruna en ef um vátryggingu er að ræða þá hafi líkurnar aukist í 50-60%, allt er þetta eftir gefnum forsendum.

Þarna er verið að leitast við að setja þetta í samhengi við söguna en skoðað er í baksýnisspegilinn hvernig fyrirtæki fara út úr svona málum og hvernig þau standa sig í kjölfarið.

Yfirleitt situr samkeppnin ekki aðgerðarlaus ef aðili lendir í tjóni.  Fyrirtæki sem stöðvar sína framleiðslu til lengri tíma þarf að vinna markaði að nýju og það getur verið erfitt ef samkeppnin sefur ekki. Það er því mikilvægt að atburðir falli innan skilmála og að fjárhæðir séu í samræmi við allar eignir tjónþola. Að vera tryggður gefur ekki til kynna að tjónsatburður skili viðkomandi í sömu stöðu og fyrir tjón en það getur hugsanlega gert það en bara ef rétt er að staðið. 

Fæstir í okkar samfélagi leiða hugann að vátryggingum og vátryggingavernd.  Fólki finnst bara að hlutir eiga að vera vátryggðir. 

Vátrygging er samningur um að ef atburður gerist þá er hann peningalega bættur með þeim takmörkunum sem samningurinn segir til um. Ef fjárhæðir eða aðrar upplýsingar eru rangar þá er  tryggingin gagnslaus þrátt fyrir að vera með hana.  Innihaldið er rangt eða takmarkað.

Ég til dæmis hef verið að skrifa um vantryggingu ferðatrygginga á Íslandi.  Ferðatryggingar eru vægast sagt barnaleg nálgun á viðfangsefnið í ljósi vátryggingafjárhæða.  Þær eru í engu samræmi við áhættuna sem verið er að vátryggja.  Annað dæmi um slíkt eru dagpeningar í launþegatryggingum.  Þar eru dagpeningar í þeim vátryggingum sjaldnast í samræmi við innkomu viðkomandi.  Það er jú verið að vátryggja áhættuna sem skapast ef viðkomandi getur ekki unnið. 

Svo er frekar algengt að lausafé og aðrar eignir séu vátryggðar langt undir verði.  Þá er tjónþoli ekki að fá tjón sitt bætt að fullu.

Vátryggingafélögin verða að haga vátryggingafjárhæðum eftir þeim áhættum sem verið er að vátryggja sig fyrir.  Ég er ósáttur við þeirra nálgur í ferðatryggingum þar sem greinilega er leitast við að lækka vátryggingafjárhæðir og takmarka með öðrum hætti gildissvið til að takmarka tjón í staðinn fyrir að selja á réttu verði vátryggingu sem hver og einn þarf.  Það er engin vátryggingarmennska að selja vátryggingu sem stendur ekki undir áhættunni. 

Spurning eins og ertu með fjölskyldutryggingu, er ég þá tryggður?  Já en ef ég lendi inni á spítala í Bandaríkjunum og þarf að fara í uppskurð á staðnum þá dugar líklega sú vátrygging ekki fyrir tjóninu.  Er ég þá tryggður?  Nei líklega ekki.

Vátryggingar eru nauðsynlegar þar sem annað tveggja, það er tjón er líklegt að gerist eða hagsmunaaðilar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að standast hugsanlegt áfall.  Ef vátryggingafjárhæðir eru áætlaðar af vátryggingataka þá er það hans að bera ábyrgð á þvi en fastar forgefnar vátrygginga fjárhæðir sem vátryggingafélögin eru með í sínu vöruframboði eru á ábyrgð þeirra.  Þar má gera betur.

 

Smári Ríkarðsson