Hugleiðsla – myndlist – kvenlækningar

Magasín í kvöld kl 20:

Hugleiðsla – myndlist – kvenlækningar

Unnur og Hrafnhildur frá Hugarfrelsi
Unnur og Hrafnhildur frá Hugarfrelsi

Snædís Snorradóttir umsjónarmaður Magasín skrifar:

Það verður svo sannarlega snert á ólíkum en áhugaverðum hlutum í kvöld í þættinum Magasín.

Þær Unnur og Hrafnhildur stofnuðu Hugarfrelsi með það skýra markmið að miðla hugleiðslu og innri ró til barna. Nú nokkrum árum síðar eru þær með rúmlega 150 iðkendur á námskeiðum sínum. Mikil vitundavakning hefur verið undanfarið um að hugleiðsla hefur gríðarleg áhrif á andlega líðan og þá sér í lagi í hraða nútímasamfélagsin. Börn greinast með kvíða, athyglisbrest og ofvirkni og þær Unnur og Hrafhildur segjast sjá mikinn mun á börnunum frá fyrsta til síðasta tíma. Kennslan er í grunninn eins einföld og hugsast getur, en felur jafnframt í sér það sem við eigum til að gleyma – að anda. 

Elli Egilsson hefur snert á mörgu en myndlistin var alltaf innan seilingar, alveg frá barnæsku. Elli ólst upp við að horfa á föður sinn og nákomna mála svo að pensilinn fékk hann nánast í sængurgjöf. Elli hefur verið mikið í tónlist, hann er menntaður kokkur og óneitanlega haft áhrif á hönnunarheima Íslands.

Málverkin hans Ella eru eins og maður ímyndar sér hina hörðu íslensku náttúru, fjöll, vindur og snjór stíga dans á striganum og hafa dáleiðandi áhrif á áhorfandann sem upplifir jafnvel verkið sem einhvers konar minningu, þó svo hún sé ekki til staðar. Mann langar ósjálfrátt að segja „þarna hef ég komið!“ þó svo að málverkin séu spuni og slíkt gæti aldrei gerst.

Í lok þáttar opnast okkur nýsköpun sem mun gagnast mörgum konum á áður óþekktan hátt.  Florealis eru ný náttúrulækningalyf sem nú eru komin á markað. Florealis er með þrenns konar línur en Elsa Steinunn Halldórsdóttir frumkvöðull og doktor í lyfja- og efnafræði náttúruefna segir frá kvenlínunni. Til að mynda er lyfið Lyngonia fyrsta náttúrulyfið sem er samþykkt á Íslandi og vinnur það gegn þvagfærasýkingu.  

Ég segi bara til hamingju Ísland ! Loks skilvirk lausn án sýklalyfja.

 Missið ekki af sérstaklega fræðandi og skemmtilegum Magasín þætti.

 

 

Nýjast