Hryðjuverkaárásin í Sri Lanka var hefnd fyrir Christchurch – Íslamska ríkið lýsir yfir ábyrgð

Hryðjuverkaárásin í Sri Lanka var hefnd fyrir Christchurch – Íslamska ríkið lýsir yfir ábyrgð

Frum­rann­sókn yf­ir­valda á Sri Lanka sýn­ir fram á að hryðju­verka­árás­irn­ar á páska­dag, sem hafa kostað 310 manns­líf hið minnsta og sært yfir 500 manns, voru hefnd­ar­verk vegna hryðjuverkaárás­anna í Christchurch á Nýja Sjálandi í síðasta mánuði. Þetta er haft eftir Ruw­an Wij­ew­ar­dene, varn­ar­málaráðherra Sri Lanka. Mbl.is greinir frá.

„Frum­rann­sókn­in hef­ur af­hjúpað að það sem gerðist á Sri Lanka var í hefnd­ar­skyni fyr­ir árás­ina gegn múslim­um í Christchurch,“ sagði Wij­ew­ar­dene við þingmenn þjóðarinnar. Hann hefur þó ekki lagt fram sannanir þess efnis.

Búið er að handtaka 40 manns vegna rann­sókn­ar yf­ir­valda á árásunum. Mbl.is greinir auk þess frá því að á meðal víga­mann­a séu tveir bræður sem eru synir auðjöf­urs í Colom­bo, höfuðborg Sri Lanka. Frömdu bræðurnir árásirnar á Shangri-La og Cinnamon Grand hótelunum þar í borg. Þegar sér­sveit­ar­menn komu á heim­ili fjöl­skyld­u annars þeirra sprengdi eiginkona hans sig upp ásamt börn­um þeirra. Tel­ur lög­reglan í Colombo að fjöl­skyld­an hafi verið sér­stök hryðjuverka­sveit. 

Rík­is­stjórn Sri Lanka hef­ur viður­kennt að hafa fengið ábend­ingu um fyr­ir­hugaða árás innlendu hryðjuverka­sam­tak­anna National Thowheeth Jama‘ath 10 dögum áður en árás­ar­menn­irn­ir framkvæmdu verknaðinn með sam­hæfðum sjálfs­vígs­árás­um í kirkj­um og á hót­el­um.

Lýsa yfir ábyrgð

Ríkisstjórn Sri Lanka kennir National Thowheeth Jama‘ath um verknaðinn og telur það mögulegt að þau hafi starfað með stórum alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum á við Al-Qaeda eða Íslamska ríkinu. 

National Thowheeth Jama‘ath hefur ekki lýst yfir ábyrgð á árásunum en það hefur Íslamska ríkið hins vegar gert. Íslamska ríkið hefur þó ekki fært fram neinar sannanir þar að lútandi. Í Fréttablaðinu er greint frá því að sam­tökin hafi oft lýst yfir á­byrgð á hryðjuverkaárásum undan­farin ár án þess að hægt hafi verið að sýna fram á að­komu þeirra. Sérfræðingar sem breski miðillinn The Guardian vitnar í telja þó að árásirnar beri með sér fingraför Íslamska ríkisins. 

Hryðju­verka­sér­fræðingar benda á að miðað við undir­búning á­rásanna og efni­viðinn sem notaður hafi verið í sprengju­gerðina sé ekki lík­legt að National Thowheeth Jama‘ath hafi getað staðið ein að baki á­rásunum. Svo skammur var fyrirvarinn, auk þess sem samtökin eru sögð ung að aldri og fámenn.

Nýjast