Hróksliðar klyfjaðir gjöfum til grænlands: air iceland connect-hátíðin að hefjast

Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir hinni árlegu Air Iceland Connect-hátíð í Nuuk, höfuðborg Grænlands, frá 5. til 10. júní. Hrafn Jökulsson forseti Hróksins segir að þó skákin verði vitanlega í einu af aðalhlutverkunum sé tilgangur ferðarinnar margþættur.

„Við hófum skáklandnámið á Grænlandi 2003, og höfum síðan tengst þessum góðu nágrönnum miklum vináttuböndum og komið að fjölmörgum uppbyggilegum samfélagsverkefnum í samvinnu við fjölmarga aðila. Grænland hefur auðgað líf okkar allra, sem að þessu komum, og við erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna.“

Hróksliðar munu meðal annars færa Krabbameinsfélagi Grænlands 1000 slaufur að gjöf frá Krabbameinsfélagi Íslands, sem seldar verða í fjáröflunarskyni. Tíðni krabbameins er langtum hærri á Grænlandi en í öðrum Norðurlöndum.

Þá munu Hróksmenn færa rúmlega 100 nemendum í 1. bekk í Nuuk reiðhjólahjálma að gjöf frá Kiwanis-hreyfingunni og Eimskip. 

Auk þess eiga Rauði krossinn á Grænlandi, athvarf fyrir heimilislausa og heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum von á glaðningi.

Á laugardaginn hefst svo taflmennskan með fjöltefli Róberts Lagerman skákmeistara og varaforseta Hróksins. Við það tækifæri mun Vivian Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins, veita viðtöku taflsettum fyrir alla 33 þingmenn Grænlands að gjöf frá Hróknum og Air Iceland Connect, í þakklætisskyni fyrir samvinnu og vináttu gegnum árin.

Fyrsta skák hátíðarinnar er söguleg. Þar mætast hinn blindi skákmeistari Paulus Napatoq, sem er frá Ittoqqortoormiit á austurströndinni, og Róbert, sem mun tefla með bundið fyrir augun.

\"\"

Paulus Napatoq og Róbert Lagerman

Sunnudaginn 9. september fer svo fram Air Iceland Connect meistaramótið 2019. Þar hefur Steffen Lynge skákmeistari, lögregluþjónn og tónlistarmaður titil að verja, en Steffen hefur tekið þátt í starfi Hróksins allar götur síðan í Qaqortoq 2003.

\"\"

Hrafn Jökulsson og Steffen Lynge

„Við hlökkum mikið til,“ segir Hrafn, en þetta er þriðja ferð Hróksins til Grænlands á árinu. „Við erum þakklát þeim ótalmörgu sem gera okkur kleift að sinna þessu mikilvæga og gefandi starfi. Þar ber auðvitað hæst hið frábæra starfsfólk Air Iceland Connect, sem hefur tekið þátt í þessu mikla ævintýri frá upphafi. Ég hvet Íslendinga til að kynnast okkar næstu nágrönnum og þeim heillandi heimi sem Grænland er.“