Hringbraut sýnir galdra golfsins

Golfskálinn er heiti nýjasta sjónvarpsþáttar Hringbrautar, en þar eru ekki einasta sýndir galdrar golfsins heldur góðu ráðin gefin af fagfólki og reynslumiklum sérfræðingur á sínu sviði.

Þættirnir eru teknir upp á Íslandi og Spáni, nánar tiltekið á einum fegursta og skemmtilegasta golfvellinum á austurströnd sólarlandsins, Alicante golf í samnefndri borg, en þar slóst umsjármaðurinn Sigmundur Ernir í för með PGA-kennurunum Birni Kristni Björnssyni og Ingibergi Jóhannssyni og lærði hjá þeim nokkur helstu undirstöðuatriðin í íþróttinni - og er óhætt að segja að þar hafi hann ekki komið að tómum kofanum.

Heima á Íslandi verða svo á vegi hans sérfræðingarnir Jón Gunnar Traustason, Pétur Óskar Sigurðsson og Ragnheiður Guðjónsdóttir sem vita meira og minna allt um réttu græjurnar, boltana og næringarráðgjöfina sem dugar kylfingum völlinn á enda.

Myndatöku þáttanna annast Björn Sigurðsson, Elín Sveinsdóttir og Friðþjófur Helgason og klippingu annast þeir Björn og Friðþjófur.

Þættirnir eru á dagskrá á þriðjudagskvöldum klukkan 20:00.