Hringbraut kærir rúv

Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. hefur ákveðið að kæra RÚV til fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins vegna misvísandi upplýsinga sem RÚV sendi fyrirtækjum um sjónvarpsáhorf. Þar komu fram alrangar upplýsingar um að áhorf í áttundu viku ársins 2019 á sjónvarpsstöð Hringbrautar hafi verið 0,0 prósent samkvæmt Gallup.

Hringbraut áréttar að sjónvarpsstöðin tók ekki þátt í mælingum Gallup í áttundu viku ársins. Hringbraut styðst við MMR kannanir sem byggja á svörum yfir þúsund manns í hvert skipti, en í rafrænum mælingum Gallup er stuðst við 300-400 virka mæla.

Kannanir MMR sýna svo ekki verður um villst að áhorf á Hringbraut er aldrei 0,0 prósent. T.d. horfa 52 prósent landsmanna 50 ára og eldri reglulega í hverri viku á sjónvarpsstöð Hringbrautar skv. MMR.

Í upplýsingunum sem RÚV sendi út til fyrirtækja var sérstaklega tekið fram að þau gögn sýndu hlutdeild í sjónvarpsáhorfi meðal þeirra stöðva sem mældar eru í ljósvakamælingum Gallup, en ekki annarra ljósvakamiðla. Það stenst ekki skoðun enda tók ljósvakamiðillinn Hringbraut ekki þátt í mælingum Gallup, en var þrátt fyrir það ekki einungis nefndur í gögnunum heldur var þar beinlínis fullyrt að áhorf á stöðina næmi 0,0 prósent.

\"\"

Skífurit sem var á meðal þeirra gagna sem RÚV sendi fyrirtækjum

Misvísandi upplýsingar sem þessar eru til þess fallnar að valda Hringbraut fjárhagslegu tjóni, t.a.m. vegna mögulegrar auglýsingasölu, og hafa þær þegar gert það. Því sér Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. ekki annan kost í stöðunni en að kæra RÚV til fjölmiðlanefndar og Samkeppniseftirlitsins.