Hringbraut gerir ekki mannamun

Það er nánast frumskylda fjölmiðla að gæta að jafnræði og sem jöfnustum tækifærum allra frambjóðenda til embættis forseta Íslands. Fjölmiðlar eru vissulega valdalausir en áhrifamáttur þeirra getur verið mikill. Því fylgir mikil alvara.

Fjölmiðlar 365 hafa fundið upp stjarnfræðilega flókna formúlu um hvernig þar á að velja frambjóðendur í betri sæti og svo í almenn sæti. Fjölmiðlar 365 hafa, með þessu, bakað sér tvennt, vanda og ótrúverðugleika.

Hringbraut mun ekki falla í það far, eða réttara sagt, Hringbraut gerir ekki mannamun. Þegar hefur verið samin kosningadagskrá Hringbrautar og verður hún send öllum frambjóðendum í dag. Von er að þeir þekkist þau fínu boð sem þeim munu standa til boða.

Myndver Hringbrautar takmarkar hversu margir gestir geta verið þar samtímis. Þess vegna verður frambjóðendum skipt niður í hópa í næstu umferð okkar, þegar kappræður eða samræður þeirra hefjast. Síðar verður stór fundur með öllum frambjóðendum. Allt verður þetta skýrt nánar. Víst er að framundan er umfangsmikil og sanngjörn umfjöllun um komandi kosningar. Þar sem allir frambjóðendur standa jafnir.

Tvennt er í gangi nú á Hringbraut. Frambjóðendur koma í viðtöl um sína persónu í Mannamálum. Eins hafa þeir komið hver af öðrum í stutt og snörp fréttaviðtöl.

Sem fyrr segir eru kappræður þeirra framundan. Fyrsti í smærri hópum og síðar með stórum fundi með öllum frambjóðendum.

Hringbraut gerir ekki mannamun.

Sigurjón Magnús Egilsson.