Hringbraut fagnar 2ja ára afmæli

Sjónvarpsstöðin Hringbraut fagnar tveggja ára afmæli um þessar mundir, en útsendingar hennar hófust að kveldi 18. febrúar 2015 eftir tveggja mánaða strangan undirbúning. Fyrsti gestur stöðvarinnar var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands í fyrsta þætti stöðvarinnar, Mannamáli.

\"Þetta hefur verið ævintýralega skemmtilegur tími,\" segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri Hringbrautar og einn stofnanda stöðvarinnar ásamt Guðmundi Erni Jóhannssyni, útgefanda, Sverri Karlssyni, tæknistjóra og Sigurði K. Kolbeinssyni sem leiddi stjórn stöðvarinnar í byrjun, en fjórmenningarnir kynntust við stofnun Stöðvar 2 fyrir röskum 30 árum.

\"Mestu munar,\" segir Sigmundur Ernir \"að viðtökurnar hafa verið einstaklega hlýjar. Við finnum fyrir afskaplega mikilli velvild í garð stöðvarinnar, enda hefur áhorf á hana vaxið jafnt og þétt. Gildi okkar hafa gengið eftir í dagskránni, en þau eru mannvirðing, umburðarlyndi, víðsýni og jafnrétti - og það hefur verið okkur sérstakt kappsmál að sjónvarpa upplýsandi og fræðandi umræðu þar sem áhersla hefur verið lögð á jafna aðkomu kvenna og karla,\" bendir dagskrárstjórinn á, en samkvæmt talningu á viðmælendum Hringbrautar frá byrjun eru þeir orðnir 2540, þar af 1366 karlar og 1174 konur \"og ég held að fáir, ef nokkrir aðrir fjölmiðlar hér á landi geti státað af álíka jöfnu hlutfalli kynjanna í sínum efnisþáttum,\" bætir Sigmundur Ernir við.

Hringbraut hefur að jafnaði frumsýnt tvo tíma af íslensku sjónvarpsefni á virkum dögum - og hefur haft á að skipa þaulvönu sjónvarpsfólki frá því útsendingar hennar hófust - og má þar nefna landsþekkt fjölmiðlafólk á borð við Aðalbjörn Sigurðsson, Björk Eiðsdóttur, Björn Þorláksson, Helga Pétursson, Huldu Bjarnadóttur, Karl Th. Birgisson, Karl Ágúst Úlfsson, Lindu Blöndal, Lukku Pálsdóttur, Margréti Marteinsdóttur, Pál Magnússon, Rakel Garðarsdóttur, Sigríði Arnardóttur, Sigurjón Magnús Egilsson, Sólveigu Ólafsdóttur, Sölva Tryggvason og Valgerði Matthíasdóttur.

Hringbraut rekur að auki samnefndan vef og útvarpsstöð á fm-tíðninni 89,1 en þar stýrir tónlistargoðsögnin Eyjólfur Kristjánsson tökkunum alla morgna og leggur áherslu á íslenska músík.

\"Við munum halda okkar striki og efla okkar dagskrárgerð á næstu misserum í nýjum og rúmgóðum húsakynnum okkar á Eiðistorgi,\" segir Sigmundur Ernir, en minnir um leið á að rekstur frjálsra og óháðra fjölmiðla á Íslandi sem sinni einvörðungu íslenskri dagskrárgerð af fagmennsku sé ekki sjálfgefinn í því ósanngjarna rekstrarumhverfi sem sé við lýði á Íslandi, en þar sé vel að merkja ekki við Ríkisútvarpið að sakast heldur ríkisvaldið sjálft sem sé staðráðið í að viðhalda ójafnvægi á markaðnum - og gildi þar einu hvaða flokkar séu við völd: \"Svona hefur þetta verið frá því ég byrjaði í blaðamennsku fyrir hálfum fjórða áratug. Einkareknir fjölmiðlar hafa verið kraftaverki líkastir - og þar er líka sjarmi þeirra kominn,\" segir dagskrárstjórinn.

Fastir starfsmenn Hringbautar eru nú 12 að tölu, fyrir utan lausafólk í dagskrárgerð, en Rakel Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri miðlanna þriggja sem heyra undir Hringbraut.