Hrapað að ályktunum

Greining Kristjáns Sigurjónssonar á blogginu Túrista.is um kólnun í ferðaþjónustunni hefur vakið mikla athygli og jafnvel nokkrar vangaveltur um gagnverk efnahagslífsins. Þannig tók ritstjóri annars bloggs, Miðjunnar (sem reyndar er faðir Kristjáns og bróðir Gunnars Smára Egilssonar) þessari greiningu sem rökstuðningi fyrir því að allt tal um að krónan sé orðin of dýr sé rangt. 

Greining Kristjáns gengur í meginatriðum út á það að tengja saman fjöldatölur yfir ferðamenn af ákveðnum þjóðernum við fjölda flugferða sem farnar eru milli einstakra borga á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Sú staðreynd að fjöldi Bandaríkjamanna eykst á meðan fjöldi Evrópubúa minnkar er tengd við ákvarðanir flugfélaga um að fjölga ferðum vestur um haf, en fækka ferðum austur til Evrópu. 

Nú er augljóst að tengsl eru á milli fjölda ferðamanna og þess framboðs af flugi sem boðið er uppá. Ef ekki er flogið kemur enginn. En hvaða öfl ráða ákvörðunum flugfélaga? Hlýtur ekki eftirspurn flugfarþega og hversu þétt setinn bekkurinn var í yfirstöðnum flugferðum að ráða því hvort flugfélög viðhaldi viðkomandi ferðatíðni?

Þar fyrir utan er jafnan mun flóknari en svo að eingöngu sé hægt að horfa til flugtilboða. Eyðslumynstur ferðamanna er annar þáttur sem verður að skoða og verðlag á staðkvæmdarvörum Íslands verður einnig að skoða ef menn ætla að komast að einhverri niðurstöðu um samkeppnishæfi Íslands sem ferðamannalands. 

Engin leið er að draga þá ályktun af minnkandi umsvifum flugfélaga á austurleiðinni að Krónan sé passlega sterk. Slík ályktun er hrap.