Hörður er látinn

Hörður Sig­ur­gests­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Eim­skipa­fé­lags Íslands, lést á mánudagsmorgun, annan í páskum. Hörður var áttræður, fæddur í Reykjavík 2. júní 1938.

Í Morgunblaðinu í dag segir að Hörður hafi lokið stúd­ents­prófi frá Versl­un­ar­skóla Íslands árið 1958 og viðskipta­fræðiprófi frá Há­skóla Íslands árið 1965. Hann lauk MBA-prófi frá Whart­on School, Uni­versity of Penn­sylvania í Banda­ríkj­un­um árið 1968. Á ár­un­um 1965-1966 var Hörður full­trúi fram­kvæmda­stjóra hjá Almenna bóka­fé­lag­inu.

\"\"

Morgunblaðið rekur einnig starfsferil Harðar. Hann var ráðinn til starfa í fjár­málaráðuneyt­inu, fjár­laga- og hag­sýslu­stofn­un, árið 1968 og starfaði þar til 1974. Þá varð Hörður framkvæmda­stjóri fjár­mála­sviðs Flug­leiða og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn for­stjóri Eim­skipa­fé­lags Íslands árið 1979. Hörður lét af starfi for­stjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flug­leiða frá 1984 til 2004, þar af sem formaður frá 1991 til 2004. Hörður tók um skeið virk­an þátt í starfi Sjálfstæðisflokks­ins, sat í stjórn SUS, í stjórn Varðar og í stjórn full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík. Þá var hann formaður stúd­entaráðs frá 1960 til1962.

Auk þess sat Hörður í mörg­um stjórn­um, nefnd­um og ráðum fyr­ir hið op­in­bera, einka­fyr­ir­tæki og félaga­sam­tök. Morgunblaðið nefnir setu í stjórn­um Stjórn­un­ar­fé­lags­ins, Versl­un­ar­ráðsins, Vinnu­veit­enda­sam­bands­ins og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar­inn­ar, þar sem hann var formaður um skeið. Hörður lét sér mjög annt um mál­efni Há­skóla Íslands og sat í há­skólaráði sem full­trúi þjóðlífs, skipaður af mennta­málaráðherra, á árunum 1999 til 2003 og var formaður stjórn­ar Landsbókasafns-Há­skóla­bóka­safns frá 2003 til 2008. Í nóv­em­ber 2008 var hann gerður að heiðurs­doktor við Há­skóla Íslands.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Harðar er Áslaug Ottesen bóka­safns­fræðing­ur, f. 1940. Börn þeirra eru Inga, f. 1970, og Jó­hann Pét­ur, f. 1975. Barna­börn­in eru fimm.