Hollusta, hreyfing og sundfatasýning

Í Tímarími síðastliðinn laugardag var fjallað um offitu sem sjúkdóm og fylgikvilla hans, sem sumir hverjir eru banvænir, eins og t.d. sykursýki 2. Einnig var skoðað hvaða úrræði væru til staðar andspænis þessum sjúkdómi. Sumir geta snúið við blaðinu og komist á rétta braut með því að breyta mataræði og taka upp skipulega líkamsrækt. Aðrir þurfa læknisaðstoð og lyfjameðferð til að komast á réttan kjöl. Svo eru það þeir þyngstu, sem í mörgum tilfellum verða að grípa til þess ráðs að fara í skurðaðgerð. Um er að ræða þrjár megintegundir af skurðaðgerðum gegn offitu; magaermi, magaband og magahjáveitu.

Í þættinum var rætt við læknana Örnu Guðmundsdóttur og Auðun Svavar Sigurðsson. Einnig var rætt við Björn Leifsson í World Class.

Þáttinn í heild sinni er að finna hér:

Í Tímarími annað kvöld verður haldið áfram að fjalla um hluti tengda þyngd og líkamsrækt. Þáttastjórnandinn, Ólafur Arnarson, fór sjálfur í magaermisaðgerð í lok maí 2017, þegar hann var kominn yfir 140 kg. Eftir aðgerðina léttist hann tiltölulega hratt fram í nóvember, þegar hann vó 103 kg. Ekkert gerðist eftir það og var eins og hann hefði lent á vegg. Í byrjun febrúar 2018 hóf hann skipulega líkamsrækt í Hreyfingu undir handleiðslu fagfólks og kílóin byrjuðu aftur að hrynja af honum. í byrjun sumars var hann orðinn 88 kg. og hefur haldið þeirri vigt síðan.

Í þættinum annað kvöld fylgjumst við með honum í ræktinni og heyrum í Dr. Grétu Jakobsdóttur, næringarráðgjafa og einkaþjálfara, Finni Atla Magnússyni, íþróttafræðingi og einkaþjálfara, og  Söndru Dögg Árnadóttur, sjúkraþjálfara og fagstjóra hjá Hreyfingu. Viðkvæmir eru varaðir við því að í þættinum birtist Ólafur Arnarson m.a. á sundfötum.

Þátturinn hefst klukkan 20:30 á laugardagskvöld.