Hollur morgunmatur sem tekur aðeins örfáar mínútur

Ég vil byrja alla mína morgna á hollum og góðum morgunverði til að eiga næga orku út daginn. Ég er líka ein af þeim sem vill eiga notalega stund og hafa tíma til að lesa blaðið, spjalla við krakkana um komandi dag eða bara hlusta á tónlist á morgnana til að koma mér í gírinn. Uppáhalds morgunmaturinn minn er því mjög hollur, fljótlegur og yndislega góður. Ég set hann í glerkrús því þá get ég einnig tekið hann með mér í vinnuna og fengið mér hann þegar ég vil. Allt sem ég nota er lífrænt og því bestu mögulegu gæði.

Ég undirbý hann deginum áður og þá er hann tilbúinn um leið og ég vakna.

Innihald:

Haframjöl

Chiafræ

Kókosflögur

Frosin hindber

Haframjólk

Ég set innihaldið í krúsina í þeirri röð sem þau birtast og geymi í ísskáp yfir nóttina, því þá eru chiafræin búin að draga í sig vökvann um morguninn og tilbúin til neyslu.

Stundum breyti ég til og nota mangó líka eða múslí, það má alveg leika sér með uppskriftina.

Eins og þið sjáið er þetta einfalt, fljótlegt og himneskt, gjörið þið svo vel.