Hollt og gott í nestistöskuna sem eykur orku og úthald – „nú ætlum við að drullumalla chia graut“

Í þættinum Fasteignir og heimili á dögunum fór Sjöfn Þórðar í heimsókn til Margrétar Leifsdóttur arkitekts og heilsumarkþjálfa í eldhúsið á heimili hennar í Vesturbænum. Hjarta heimilisins slær svo sannarlega í eldhúsinu og Margrét nýtur sín til hins ýtrasta við að galdra fram hina ýmsu heilsurétti og þessa dagana er hollt nesti í forgrunni. Í tilefni heimsóknarinnar galdraði Margrét fram nokkra hollusturétti sem smellpassa í nestistöskuna beint út í náttúruna, fjallgönguna, sundið eða hvert sem leið liggur.

Margrét er lista góð í því að undirbúa hráefni og eldklár á blandarann og var svo sannarlega á fullri ferð þegar í eldhúsið var komið og sagði: „Nú ætlum við að drullumalla Chia graut,“ og hló upphátt. Það var því líf og fjör í eldhúsinu með Margréti. Sjöfn fékk Margréti til að gefa okkur uppskriftirnar af Sumargrænum þeytingi og Chia-partý graut sem hægt er að bæta í berjum og alls konar ljúffengum suðrænum ávöxtum, kókosflögum og öðru eftir smekk hvers og eins. Þessa uppskriftir eru algjört æði og ofur einfaldar í framkvæmd.

Sumargrænn þeytingur

(4 stór glös)

2 stór eða 5-6 lítil grænkálsblöð eða annað grænt kál

3-5 dl frosið mangó eða ananas

1,5-2 cm rifin engiferrót

1 sellerý stöngull

fita: veljið annaðhvort 1 avókadó eða 2 msk kaldpressaða ólífuolíu

sæta: veljið 1 kost: 3-5 litlar þurrkaðar döðlur/ 1 epli/ 2,5 dl af kókosvatni 5 -6 dl vatn (athugið, minna vatn ef þið notið kókosvatn)

Allt sett í kröftugan blandara og blandað vel. Það er gott að breyta stundum til og setja í drykkinn það sem til er. Það má gjarnan setja spírur eða brokkolí saman við. Einnig má bæta út í græna drykkinn: Agúrku, sellerý, lime, hampfræjum, goji berjum, möluðum hörfræjum eða möluðum graskersfræjum. Það er alger óþarfi að setja allt í einu en það er gott að breyta til reglulega til að fá eins mikið af góðum og mismunandi næringarefnum og hægt er.

\"\"

Chia-partý

(fyrir 1)

2 msk. chia fræ

150-200 ml heimagerð möndlumjólk

1. Hrærið chia fræjunum saman við möndlumjólkina.

2. Látið liggja í um það bil 10 mínútur, hrærið nokkrum sinnum í grautnum.

3. Bætið við ávöxtum, til dæmis epli, mangó eða berjum

4. Ofaná er gott að setja kókosflögur, kanil, hnetur eða mórber.

\"\"