Ellý fært Gísla og Ólafi rúmar 70 milljónir: Græða á tá og fingri

Ellý fært Gísla og Ólafi rúmar 70 milljónir: Græða á tá og fingri

Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egill Egilsson, höfundar hins sívinsæla söngleiks Ellý, sem er nú í sýningum í Borgarleikhúsinu þriðja leikárið í röð, hafa grætt á tá og fingri vegna vinsælda söngleiksins. Samkvæmt heimildum Hringbrautar nemur upphæðin samtals tæplega 75 milljónum króna, sem þeir hafa deilt sín á milli.

Samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu hafa rúmlega 100.000 manns séð Ellý, sem var frumsýndur í mars 2017. Allir höfundar leikverka sem eru sett á fjalir Borgarleikhússins gera staðlaðan samning, sem er samningur milli Rithöfundasambands Íslands og Leikfélags Reykjavíkur. Gerður er einn samningur vegna hvers leikverks, burtséð frá því hve margir höfundar koma að því.

Í núverandi samningi milli RSÍ og LR stendur í 3. gr. sem fjallar um viðbótargreiðslur: „Fyrir einstakar sýningar, eftir að 10.000 aðgöngumiðar hafa selst, greiðist mánaðarlega eftir á 12% af andvirði seldra aðgöngumiða umfram það. Ef um er að ræða söngleik með hækkuðu miðaverði, er eftir sem áður miðað við venjulegt miðaverð.“

Ellý fellur undir sérstaka leiksýningu með söng með hækkuðu miðaverði. Í dag er almennt miðaverð 6.550 krónur. Ef miðað er við að 90.000 manns hið minnsta hafi séð söngleikinn, umfram þá 10.000 sem þarf til að virkja 3. grein samningsins, og að miðaverð sé venjulegt miðaverð, hafa Gísli Örn og Ólafur Egill fengið samtals 70.740.000 krónur í viðbótargreiðslur.

Þá er ótalin greiðslan sem þeir fengu fyrir leikverkið í upphafi, um fjórar milljónir króna, sem þýðir að upphæðin er samtals tæplega 75 milljónir króna. Ekki er loku fyrir það skotið að upphæðin sé ennþá hærri enda rúmlega 100.000 manns séð Ellý, þó ekki liggi fyrir hver nákvæm tala sé.

Rétt er að geta þess að miðaverð getur breyst milli leikára og að við þessa útreikninga var stuðst við nýjasta samninginn milli RSÍ og LR. Gísli Örn og Ólafur Egill skrifuðu undir samninginn vegna Ellý árið 2016 og söngleikurinn var frumsýndur 18. mars 2017. Því gæti heildarupphæðin sem þeir fengu samtals greitt fyrir verkið og í viðbótargreiðslur verið ögn lægri.

Nýjast