Höfum oftar stjórnast af hagsmunum!

Íslensk stjórnvöld hafa oftar valið viðskiptahagsmuni fram yfir siðferðileg álitamál segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur. Vandasamt sé þó fyrir smáríki að velja ávalt þá leið.
 

Í samtali við RÚV segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur þá stöðu sem íslensk stjórnvöld standi frammi fyrir núna oft hafa komið upp áður: \"Þetta er klassískt álitamál fyrir stjórnvöld í lýðræðisríkjum. Hvað á að ráða viðskiptahagsmunir eða siðferðissjónarmið.“

Guðni segir núverandi deilur Íslendinga og Rússa líkjast því þegar íslensk stjórnvöld studdu sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Þá hafi Rússar hótað viðskiptaþvingunum. Á síðustu öld hafi viðskiptahagsmunir þó oftar ráðið för: \"Sláandi dæmi um það væri stuðningu Íslendinga við kúgaðar þjóðir að brjótast undan oki nýlenduþjóða í Afríku. Þar heyrðist rödd Íslands hátt og skýrt þegar viðskiptahagsmunir voru ekki í húfi. Ætti til dæmis Portúgal í hlut þar sem eru og voru mikilvægir markaðir þá þögðum við.“

Guðni segir þó vandasamt fyrir smáþjóð að feta þessa slóð: \"Fyrir smáþjóð í hörðum heimi gengur ekki bara að vera eins og einhverjir siðapostular eða hreinar meyjar sem feta hinn þrönga veg dyggðarinnar. Menn verða hugsa aðeins um hagsmuni landsins í bráð og lengd. Að því sögðu, hvað skiptir meira máli til lengri tíma; sala á makríl eða heimsástandið eða ofríki rússneskra ráðamanna.“