Hnípin þjóð í vanda: „ekki er að sjá að aðferðum krísustjórnunar hafi verið beitt af stjórnvöldum vegna þeirrar ógnar sem steðjar að íslensku orðspori"

Haustið 1995 ákvað ríkisstjórn Íslands, að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert. Sá dagur var í fyrradag og árlega hafa stjórnvöld á þessum degi beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti hefur athygli þjóðarinnar verið beint að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Það er þarft og lofsvert því það er gömul saga og ný að tungumál okkar á í vök að verjast.

Eftir Jónas liggja magnaðar perlur, hvort tveggja að innihaldi en ekki síður orðfæri. Ein þeirra er Gunnarshólmi sem birtist fyrst í ritinu Fjölni árið 1838.

Viðfangsefni skáldsins er samnefndur hólmi þar sem Gunnar sneri aftur. Ljóðið hefur lifað með þjóðinni síðan og er víða í nokkru eftirlæti.

Í niðurlagi þess segir Jónas:

dauft er í sveitum, hnipin þjóð í vanda;

en lágum hlífir hulinn verndarkraftur

hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.

Ósennilegt er að Jónas hafi þá áttað sig á hversu fleyg orð hans yrðu og við hversu fjölbreyttar aðstæður þau yrðu viðhöfð. Þær aðstæður eru uppi nú. Enn og aftur erum við Íslendingar hnípin þjóð í vanda. Viðbrögð okkar við tíðindum liðinnar viku hafa verið með ýmsu móti. Reiði, gremja og heift hefur líklega verið mest áberandi. En margir hafa kosið að sitja hjá í opinberri umræðu og hugsað sitt.

Við stjórnun fyrirtækja eru víða til mótaðir ferlar sem grípa má til þegar krísa steðjar að sem ógnar orðspori. Í fréttamáli liðinnar viku er orðspor undir. Ekki bara þess fyrirtækis sem í hlut á, heldur heillar atvinnugreinar sem veitir þúsundum manna atvinnu og aukinheldur orðspor þjóðar sem lagt hefur stórfé og strit í þróunaraðstoð á fjarlægum slóðum.

Ekki er að sjá að aðferðum krísustjórnunar hafi verið beitt af stjórnvöldum vegna þeirrar ógnar sem steðjar að íslensku orðspori. En hafa þarf í huga í því sambandi að stutt er um liðið síðan málið kom upp og mjög margt er óljóst í þeim efnum.

Það ætti samt ekki að hindra að þegar verði hafinn undirbúningur að því að vernda og tryggja traust. Ein þeirra spurninga sem svara þarf út á við í þessu skyni er: getur þetta komið fyrir aftur? Vonandi er svarið við því neikvætt. Og sé svo getum við fundið okkar Gunnarshólma.

Hólmann þar sem Gunnar sneri aftur.