Hjón og sonur þeirra létust í flugslysinu

Hjón, karl og kona, fórust ásamt syni sínum í flugslysinu sem varð við flugvöllinn í Múlakoti í Fljótshlíð á sunnudagskvöld. Annar sonur hjónanna og kona hans liggja alvarlega slösuð á Landspítalanum en samkvæmt lögreglu er líðan þeirra stöðug. Fréttablaðið greinir frá.

Enn er ekki búið að birta nöfn þeirra látnu en lögregla staðfesti í gær að allir sem voru um borð hafi verið Íslendingar.

Rannsókn á slysinu er nú þegar í fullu gangi og er rannsóknarnefnd samgönguslysa á staðnum. Hjónin ásamt syninum voru útskurðuð látin á staðnum en farið var með hinn soninn og konu hans í sjúkrabíl til móts við tvær þyrlur landhelgisgæslunnar, sem fluttu þau á Landspítalann.

Þegar slökkviliðið bar að garði logaði eldur í vinstri væng vélarinnar og þurftu slökkviliðsmenn að notast við klippur til að ná fjölskyldunni úr flugvélinni.

Fréttablaðið greinir frá því að á fimmta tug slökkviliðs-, lögreglu- og sjúkraflutningamanna hafi komið að aðgerðum á slysstað. Auk þess veitti viðbragðsteymi Rauða kross Íslands vitnum að atvikinu og öðrum á vettvangi áfallahjálp.