Hjalti sakar lögregluna um spillingu og glæpi: „þetta mun allt koma í ljós - þetta er bara nýtt geirfinnsmál beint fyrir framan okkur“

Þann 16. október síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Árna Gils Hjaltasyni. Var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps.

Málið hefur vakið mikla athygli og hefur það dvalið lengi í dómskerfinu. Árni var sakfelldur fyrir að hafa stungið mann með hnífi í höfuðið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut skurð á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri. Árni sem ávallt hefur neitað sök í málinu hefur haldið því fram að hann hafi aðeins verið að verja sig.

Hjalti Úrsus faðir Árna, ræddi um mál sonar síns, í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hjalti vill meina að spilling viðgangist innan lögreglunnar og sakar hann þá um glæpsamlega hegðun.

Hjalti segist hafa verið erlendis þegar atburðurinn átti sér stað en að Brynja dóttir hans hafi tilkynnt honum við komuna til landsins að Árni, sonur hans, hafi stungið mann í höfuðið og sé í einangrun.

„Ég hugsaði bara með mér, já okey, hann var náttúrulega búinn að vera í einhverju rugli og er stór og sterkur og hafði lent í einhverju svona og ég hugsaði að það væri bara eðlilegt. Hann væri búinn að ná botninum núna. Svo heyri ég í honum eftir nokkra daga og heyri í lögmanninum hans og heyri á þeim að þetta sé eitthvað skrítið allt saman. Lögmaðurinn segir við mig: „Þetta er mjög einkennilegt mál Hjalti.“ Árni segir við mig: „Ég kom ekki með hníf á vettvang pabbi og það er ekkert blóð á vettvangi.“ Ég trúði ekki orði af því sem hann sagði ég trúði bara lögreglunni,“ segir Hjalti í upphafi viðtals.

„Síðan fæ ég ljósmyndir af vettvangi, þá eru fjórir eða fimm blóðdropar sem hafa dottið beint niður. Í átökum þá koma bogadregnir blóðdropar þegar menn eru að detta, skiljiði. Og þeir eru, takið vel eftir þessu, þeir eru bílstjóra megin við bílinn. Blóðferlafræðingur lögreglunnar segir að þessir blóðdropar stemmi við að þetta sé af fingri eða blóðnasir, það falli beint niður og er lítið sár. Átökin verða farþega megin við bílinn. Þar er ekki einn blóðdropi og þegar ég sé þetta þá hugsaði ég nú með mér hérna er nú eitthvað. Ég fer að grennslast um málið. Tæknideild lögreglunnar hlýtur að hafa farið þarna og girt þetta af og tekið blóðsýni og gengið vel frá þessu. Nei hún var aldrei kölluð á vettvang. Hún var aldrei kölluð þangað. Þeir rannsaka aldrei vettvanginn,“ segir Hjalti og bætir því við að blóðferlasérfræðingur hafi sagt að slagæðablæðing sé alltaf gríðarleg og með gríðarlegum ummerkjum.

Maðkur í mysunni

„Engu að síður heldur málið áfram. Þá náttúrulega vissi ég að það væri kominn maðkur í mysuna.“

Hjalti heldur áfram að skoða mál sonar síns betur og segist í viðtalinu hafa komist að því að önnur skýrsla sé til.

„Fyrst er hringt og sagt að Árni hafi stolið bíl, það er lygi. Hann stal aldrei bíl, Hunter og Aron þeir báðu bara vinkonu Árna um að hringja og segja að bíllinn sé stolinn. Svo kemur önnur kæra, Árni sé að skemma bíla í fleirtölu. Það hefur enginn ákæra komið að hann sé að skemma einhverja bíla, þetta er allt lygi. Síðan kemur þriðja ákæran, að Árni sé með hníf. Þetta er ekki ákæra þetta er í gögnum málsins, að hann hafi skemmt bíla og sé með hníf. Það er enn þá verið að ákæra hann fyrir að hafa komið með hníf þrátt fyrir að öll vitni sem sáu mann með hníf, þau sáu brotaþola sjálfan vera að koma hnífnum undan. Þannig að Árni sást aldrei með hníf,“ segir Hjalti.

Þá segir Hjalti að mikill ruglingur hafi verið vegna blóðprufu sem lögreglan segist hafa tekið af Árna og Hjalti segist viss um að hafi aldrei verið framkvæmd.

„Svo er hann kominn niður á stöð og þá er sagt við hann að hann verði kærður fyrir áfengis og fíkniefnaakstur vegna þess að hann hafi verið að taka fíkniefni. Árni segir: „Ha, ég var edrú ég var á bílnum, ég var edrú.“ Lögreglan spyr: „Hvernig manstu þetta allt svona vel sem gerðist ef þú manst ekki eftir blóðprufunni í morgun?“ Árni svarar: „Það var aldrei tekin af mér blóðprufa,“ segir Hjalti sem ákvað að fylgja málinu eftir hjá lögreglunni.

„Kemur í ljós 2 og hálfu ári síðar. Niðurstaðan í dómnum segir að lögreglan hafi tekið blóðprufu en eitthvað vanti uppá gögnin sem fylgi málinu. Hafa þau líklega orðið viðskila og týnst, er það afleitt en reynt verður að bæta úr því eins og hægt er. Þetta er ekki grín strákar þetta er blákaldur raunveruleikinn. Og það sem er ljótast í þessu máli er að enn þá halda þau því fram að tekin hafi verið blóðprufa. Og það er kjarni forsendanna fyrir því að hann hafi verið dæmdur, er að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og þar af leiðandi hafi hann gert þetta,“ segir Hjalti.

Stórglæpamaður í Breiðholti

Þá segist hann fyrir tilviljun hafa komist yfir aðra skýrslu.

„Þetta er ekki fyrstu fimm, sex ákærurnar sem eru rangar á hendur Árna. Fyrr hringir Hunter Muscat, hann er þekktur stórglæpamaður í Breiðholti, hefur margsinnis verið með hnífaáráasir, hótanir, er fíkill og er forfallinn í þessum eiturlyfja og glæpaheimi. Hann hringir í lögregluna rétt áður en málið gerist. Ástæðan fyri því að lögreglan vill ekki að þessi skýrsla komi inn í málið var að þeir vildu ekki tengja hnífasafnið hans og hnífaglæpina hans við Árna þannig að þeir ýta því á undan rannsókninni. Þeir koma til Hunters og spyrja hvað gerðist og hann segir: „Heyrðu Árni kom hérna og ég er allur ómögulegur hann barði mig í hausinn með baseball kylfu.“ Lögreglan segist ætla að kæra hann fyrir þetta en hann segir: „Nei ekki vera að kæra hann fyrir þetta. Fylgist þið með Árna Gills.“ Svo fer hann og hringir og segir vinkonu Árna að hringja og segja að bíllinn sé stolinn. Og hann með alla sína hnífaglæpi. Hnífurinn fannst aldrei, hnífurinn fannst aldrei á vettvangi og það er alveg ljóst að Árni var á vettvangi og hann hafði engin tök á því að koma honum undan,“ segir Hjalti og nefnir einnig að vitni hafi séð hnífinn sem hún sá brotaþola með heima hjá Hunter Muscat.

„Þetta lætur lögreglan liggja á milli hluta í málinu,“ segir Hjalti.

Þegar útvarpsmaður spyr Hjalta hvort að Árni hafi sjálfur verið blóðugur svarar hann því neitandi.

„Hann er rifin úr öllum fötunum. Hann er yfirheyrður í ónýtri sundskýlu sem er rifin. Hann er með slopp eða handklæði á öxlunum. Þetta eru flokkaðar sem pyntingar samkvæmt Evrópusambandinu. Hann er spurður hvernig honum líði og þegar honum segist líða illa vegna þess að hann sé nakinn og að þarna séu myndavélar segir Ragnheiður lögreglukona: „Hafðu ekki áhyggjur, þetta er ekki tískusýning.“ Það er alveg sama hvaða blaðsíðu þú flettir upp í dómnum þetta er allt svona,“ segir Hjalti.

Þá spyrja útvarpsmenn Hjalta af hverju þetta sé svona. Hvort verið sé að reyna að sviðsetja eitthvað, koma höggi á Árna.

„Já, þetta er algjör sviðsetning,“ segir Hjalti þá.

„Ég veit ekki af hverju glæpasamtökin og lögreglan vinna svona vel saman í þessu máli. Í öllum öðrum svona hnífa málum, ef vitni segja eitthvað rangt þá bara vísa þau málinu strax frá. Hérna ljúga þau svoleiðis fram og til baka og breyta bara framburðinum eins og þeim sýnist,“ segir Hjalti og bætir því við að glæpasamtökunum hafi staðið ógn af Árna.

„Það sem gerist þarna er að þessi Hunter Muscat, þessi foringi glæpaflokksins hann hafði stolið Rítalíni frá Árna sem hann fær læknisfræðilega. Árni vissi af þessu og hann sér þetta lyfjaglas og segir: „Ég er eini Árni Gils í heiminum, þú stalst þessum lyfjum, skilaðu þessu“ – þar byrja átökin fyrst. Árni segir að hann hafi þá ráðist á sig með baseballkylfu eða hníf eða einhverju og Árni er náttúrulega stór og sterkur og hann tekur hann bara og rassskellir hann og fer út. Það er náttúrulega slæmt fyrir svona glæpaforingja að láta rassskella sig og það er bara ástæðan. Þetta er bara hefndaraðgerð,“ segir Hjalti.

Þá segir hann Barböru, dómara málsins annað hvort ekki hafa lesið gögnin eða að hún hafi bókstaflega verið með rangar ásakanir og sýnt af sér glæpsamlegt athæfi. Hjalti segir brotaþola hafa komið með þrjár mismunandi lýsingar á aðstæðum og að Barbara hafi sagt hann staðfastan í lýsingu sinni.

„Fyrst segist hann hafa verið standandi og snúist í ringi. Tvisvar segist hann hafa verið liggjandi og í fjórða skiptið að hann hafi verið að standa upp. Segist svo ekki vita hvort hann hafi séð hnífinn áður en leiðréttir svo framburðinn og segist hafa komið með hnífinn á vettvang. Hann hafi verið undir svo hrikalegum áhrifum áfengis og fíkniefna að hann mundi ekki eftir því að hafa verið með hnífinn á sér, segir Aron. Svo skrítið, hann segist ekki muna eftir því að hafa komið með hnífinn á vettvang en svo tveimur mínútum seinna þegar búið er að maska á honum höfuðið fer minnið allt í einu í lagi og hann lýsir í smáatriðum hvernig atburðarásin átti sér stað,“ segir Hjalti sem tekur það fram að hann ætli sér að gera fjóra sjónvarpsþætti um málið.

„Þetta er orðið það stórt mál. Spillingin og glæpamennirnir innan lögreglunnar. Þetta mun allt koma í ljós,“ segir hann.

Útvarpsmenn spyrja hann þá hvað hann meini með glæpamenn innan lögreglunnar og segir þetta grófar ásakanir.

„Já glæpirnir sem eru framdir innan lögreglunnar. Þetta eru allt fölsuð sönnunargögn,“ segir Hjalti.

„Af hverju ætti lögreglan að vera að falsa sönnunargögn,“ spyrja útvarpsmennirnir hann þá.

„Ég ætla að komast að því. Ég mun komast að því en hringiði bara í lögregluna og spyrjið  hvernig málið liggur. Ég fer með þetta í eftirlits og stjórnskilpulagsdeild Alþingis og þetta mál muna allt koma á hreint. Ég lofa ykkur því,“ segir Hjalti.

Að lokum spyrja þeir hann hvort sonur hans sitji saklaus í fangelsi.

„Já það á að setja fjögur ár, þetta er bara nýtt Geirfinnsmál beint fyrir framan okkur.“