Hitabylgja í evrópu – landlæknir mælir með því að halda áfengisneyslu í lágmarki

Hitabylgju er spáð á meginlandi Evrópu næstu daga og vikur. Í Frakklandi eru líkur á að hitatölur fari yfir 35 gráður víða, og jafnvel 40 gráður í París seinna í vikunni. Svipuðu hitafari er spáð í Þýskalandi, Sviss, Belgíu og á Spáni. Í þessum löndum eru líklegt að meðalhiti verði í kringum 32 gráður. Í tilkynningu frá Embætti landlæknis er mælst til þess að íslenskir ferðalangar haldi áfengisneyslu í lágmarki.

Sjá einnig: Þarf alltaf að vera vín?

„Þeir sem hafa hug á að leggja land undir fót, eða eru staddir á meginlandi Evrópu, ættu að hafa hugfast mikilvægi þess að drekka vel af vökva. Í miklum lofthita eykst svitamyndum og vökvatap verður mikið og því meiri hætta á ofþornun. Aldraðir og ung börn eru í aukinni áhættu. Áfengi og hiti eru slæm blanda, enda er alkóhól þvagmyndandi og getur því aukið enn á vökvatap frá sól og hita,“ segir í tilkynningu landlæknis.

Þá segir að í miklum hita sé jafnframt mikilvægt að fara sér hægt, leita í skugga og halda sig innandyra þegar hitastigið nær hæstu hæðum yfir daginn. Mikilvægt sé að muna eftir sólarvörn og sólhatti þegar sól er sterk.