Himnesk fyllt egg að hætti hönnu katrínar

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo lengi mæti telja.

Við fengum að líta inn til Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokksformanns Viðreisnar og fjölskyldu, betri helmingsins Ragnhildar Sverrisdóttur og dætra þeirra, Elísabetar og Margrétar, og forvitnast um þeirra páskahefðir og siði. Hanna Katrín bauð uppá himnesk fyllt egg sem bráðnuðu í munni og skörtuðu sínu fegursta fyrir augað.

\"\"

Hvað er eftirminnilegast við páskahátíðina í bernsku þinni?

Það eru nokkur atriði sem koma upp í hugann. Í fyrsta lagi fallega páskamorgunverðarborðið þar sem páskaeggin voru í aðalhlutverki, alla vega hjá okkur krökkunum. Foreldrar mínir kynnust í Danmörku þar sem pabbi minn var heimamaður og mamma mín fór ung til náms. Þegar þau bjuggu sér heimili á Íslandi fylgdu ýmsar góðar hefðir með frá Danmörku, þar með talið dásamlegt páskadagsmorgunverðarhlaðborð.  Þau lögðu á borðið eftir að við systkinin voru farin að sofa. Svo vöknuðum við eldsnemma, laumuðumst fram og kvöldum okkur með því að horfa á páskaeggin á meðan við biðum eftir að mamma og pabbi vöknuðu. Það mátti alls ekki þjófstarta en sem betur voru þau ekki morgunsvæf,“ segir Hanna Katrín og hlær.  „Dagana fyrir páska var mamma dugleg að sitja með okkur krökkunum og hjálpa okkur að blása út egg til að lita. Ég á einhver þessara listaverka ennþá og þau eru mér mjög kær. Svo leið páskahelgin til skiptis við skíðaferðir og bóklestur. Páskaeggin voru með í för á meðan þau endust.“

Hver er þinn uppáhalds páskamatur?

„Enn þann dag í dag kemst ekkert í hálfkvisti við alvöru páskamorgunverðarhlaðborð.“

Heldur þú í ákveðnar hefðir í tengslum við páskana?

„Má ég segja páskamorgunverðarhlaðborð aftur?“ Hanna Katrín segir að því til viðbótar er það hefð hjá þeim Ragnhildi að fela páskaegg dætranna og gefa þeim svo vísbendingar. „Eggin hafa alltaf komið í leitirnar að lokum, en stundum hefur munað litlu. Við komumst nálægt því eitt árið að setja í gang þvottavél með páskaeggi í og öðru sinni fór poki með páskaeggi í út í ruslatunnu.“

Skreytir þú heimilið þitt á páskunum?

Smávegis. Gulir túlípanar og litlar páskaliljur eru ómissandi. Svo  á ég dásamlegt páskapar, svona skærgult heldri fuglapar, sem mamma mín gerði fyrir margt löngu. Það fær alltaf heiðurssess.“

Páskaliturinn þinn?

„Gulur, gulur og aftur gulur. Hef prófað aðra liti. Þeir eru fínir við önnur tækifæri. Páskarnir mínir eru gulir.“

Borðar þú páskaegg?

„Auðvitað!“

Uppáhalds páskaeggið þitt?

„Gamaldags Nói með fullt af nammi inni í.“

Áttu þína uppáhalds hnallþóru eða brauðrétt sem þú ert alltaf með á páskunum?

Meðal þess sem mér finnst ómissandi á páskamorgunverðarborðið eru fyllt egg. “

Viltu gefa okkur uppskriftina af þeim rétti, köku eða brauðrétti sem þú útbýrð/bakar ávallt á páskunum?  

Já, svo sannarlega og njótið vel.“

\"\"

Fyllt egg að hætti Hönnu Katrínar

fyrir 6

12 harðsoðin egg

2-3 msk. majónes

1-2 tsk. Dijon sinnep

2 msk. söxuð basilika

1-2 smátt saxaðir rauðlaukar

silungahrogn til að skreyta

salt og pipar eftir smekk

Byrjið á því að harðsjóða eggin. Takið skurnina af, helminga eggin langsum og taka rauðuna varlega úr með skeið. Blandið eggjarauðunni saman við majónesið, Dijon sinnepið, söxuðu basilikuna og saxaða rauðlaukinn.  Saltið og piprið eftir smekk.  Setjið blönduna aftur í eggjahelmingana og skreytið með silungahrognum.  Til hátíðabrigða má líka blanda silungahrognum við blönduna.  Berið fram á fallegum disk eða bakka.