Hildur barðist við krabbamein

Hildur Björns­dóttir lög­fræð­ingur mun verða í 2.sæti lista Sjálf­stæð­is­flokks­ins í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í vor miðað við heimildir helstu fréttamiðla í dag og verða því í tveimur efstu forystusætunum með Eyþóri Arnalds.

Hildur er einnig með BA gráðu í stjórmálafræði en hefur þó undanfarin misseri vakið athygli á baráttu sinni við krabbamein sem hún greindist með fyrir ekki svo löngu og stuðningi sínum við Ljósið, stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsveika og aðstandendur.

Hildur rifjaði þetta upp á facebook síðu sinni síðastliðið sumar en hún greindist með krabbameinið og átti dóttur sína um svipað leyti: „Í kvöld er nákvæmlega ár liðið. Ég hafði örmagnast við göngu niður stiga. Katrín Ólöf fæddist sjö dögum fyrr. Ég hlaut að vera uppgefin eftir fæðinguna. Gekk hikandi inn á bráðamóttöku Landspítalans. Fylgdi skipun móður minnar. Sat ein í gluggalausu herbergi - gjörsamlega grunlaus - þegar læknirinn sagði þetta eitlakrabbamein. Meinið væri stórt. Mjög stórt”.

Hún lýsir því að veturinn á eftir hafi farið í krefjandi lyfjameðferð og þannig unnið bug á meininu en síðasta sumar hljóp hún til styrktar Ljósinu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. “Baráttunni við krabbamein lýkur ekki strax í kjölfar meðferðar. Við tekur mikilvæg endurhæfing. Líkamleg og andleg”, stendur í færslu Hildar.