HÍ fékk 6 milljónir frá Hval rétt fyrir úttekt

HÍ fékk 6 milljónir frá Hval rétt fyrir úttekt

Mynd: RÚV
Mynd: RÚV

Hvalur hf. greiddi Háskóla Íslands 6 milljónir króna fyrir þjónusturannsókn frá hausti 2017 til vors 2018. Skömmu síðar, sumarið 2018, fól sjávarútvegsráðherra Hagfræðistofnun HÍ að gera úttekt á þjóðhagslegum áhrifum hvalveiða.

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi dýra-, náttúru- og umhverfisverndarsamtakanna Jarðarvina, gagnrýndi niðurstöður úttektarinnar í aðsendri grein í Morgunblaðinu á dögunum og segir beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafa verið vafasama frá upphafi vegna hagsmunatengsla milli Hvals hf. og HÍ.

Hann veltir því upp hvort HÍ hafi getað framkvæmt hlutlausa og efnislega úttekt á hvalveiðum Hvals hf. eftir að hafa þegið þóknun upp á 6 milljónir króna skömmu áður og dregur í efa að slík vinnubrögð teljist eðlileg eða forsvaranleg.

Fyrirspurn til rektors

Lögmaður Ole Antons sendi rektor fyrirspurn um hvaða vöruþróunarverkefni eða önnur skyld verkefni Háskóli Íslands eða undirstofnanir skólans hafi unnið fyrir Hval hf. eða Kristján Loftsson á árunum 2015-2018 og hvaða þóknun HÍ hafi fengið fyrir slík verkefni. Í svari lögfræðings á skrifstofu rektors segir:

„Vísindamenn við Háskóla Íslands framkvæmdu þjónusturannsókn fyrir Hval hf. á útdrætti lífvirkra efna úr hvalbeinum og í því skyni var gerður samstarfssamningur við Hval hf. í ágúst 2017. Samningurinn fjallaði m.a. um rannsóknir á gelatíni úr hvalbeini, sem voru gerðar til að meta gæði efnisins miðað við gelatín á markaði. Jafnframt var verið að rannsaka notkun gelatíns í himnum gerðar úr hvalagelatíni (að því marki sem mögulegt er og eftir því sem ný sýni fást úr tilraunaframleiðslu) til lyfjagjafar, sem og mögulegri notkun himnanna í læknisfræðilegum tilgangi. Rannsóknin á vegum Háskóla Íslands fól ekki í sér að þróa sérstakar járnríkar fæðubótartöflur úr langreyðarafurðum.“

Þar segir einnig að samstarfssamningnum hafi lokið í mars 2018, áður en tilkynnt var um fyrirhugaða upptöku hvalveiða að nýju. Kostnaður við þjónusturannsóknina var greiddur af Hval hf.

Í svarinu er staðfest að Hvalur hf. hafi greitt alls 6 milljónir króna fyrir þjónusturannsóknina. Upphæðin fól í sér greiðslu kostnaðar við 100 prósent starf sérfræðings þess, sem vann við rannsóknina frá 1. ágúst 2017 til 15. mars 2018 og greiðslu aðstöðugjalds á tímabilinu vegna sama sérfræðings, sem fól í sér aðstöðu auk fulls aðgengis að tækjabúnaði.

Nýjast