Hetjur leikskólanna

 

Aðlögun, þar sem nýtt barn er tekið inn á leikskóla ásamt 25 öðrum. Nýir starfsmenn eru líka að koma sér fyrir á nýjum vinnustað og ofan á það eru náttúrulega  stressaðir foreldrar sem allir eru í gríð og erg að láta starfsfólkið vita af sérþörfum síns barns, svefnvenjum, matarvenjum og skapgerð. Ekki má gleyma að oftar en ekki eru líka börn sem þurfa sérstuðning. 

Satt best að segja hafði ég búið mig undir algjöra óreiðu og sá bara ekki fyrir mér hvernig þetta færi fram, en annað kom svo sannarlega á daginn þegar ég fylgdist með tæklun starfsmanna á erfiðum aðstæðum. Þessar dásamlegu konur sem koma til með að hugsa um barnið mitt 8 klukkustundir á dag, 5 daga vikunnar eru valkyrjur. Þær eru með eitthvað það ótrúlegasta jafnaðargeð og ró sem hugsast getur. 

Á 3 dögum ná þær að taka 25 börn úr algjörri óvissu og óöryggi úr höndum foreldra sinna, yfir í samstarf með hinum börnunum, örugg og róleg. – Hvernig í ósköpunum !? Ég er búin að reyna að róa barnið mitt í 2 ár. 

\"\"

 

Ég viðurkenni, ég hef ekki eitt svona miklum tíma inná leikskóla síðan ég sjálf var barn svo að ég hef kannski aldrei áttað mig á öllu starfinu sem þar fer fram. Starfið er skipulagt í þaula og verklagið er engu líkt.

Ég mæli eindegið með að háttvirtir borgarfulltrúar taki þriggja daga vettvangsferð á leikskóla og endurmeti núverandi fjárlög tengd launamálum þessa dugnaðarforka sem starfa við að hlúa að börnunum í landinu. 

**Snædís**