Herdís segir upp: eingöngu starfað í nokkrar vikur

Herdís Gunnarsdóttir hefur ákveðið að stíga niður sem forstjóri Reykjalundar. Í tilkynningu sem hún sendi frá sér í dag segir Herdís að persóna sín hafi að ósekju dregist inn í deilur sem eiga sér djúpar rætur og forsögu sem sér séu óviðkomandi. Herdís hefur eingöngu starfað sem forstjóri Reykjalundar í nokkrar vikur. Mikil óánægja hefur skapast á Reykjalundi eftir að bæði forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi var sagt upp störfum án útskýringa. Þá var fyrrverandi forstjóri Reykjalundar látinn skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann mætti ekki ræða málefni Reykjalundar né uppsögn sína við neinn.
 
„Ég gekk inn í mjög erfiðar aðstæður, að beiðni stjórnar SÍBS, og hef sem forstjóri komið því til leiðar sem ég taldi nauðsynleg næstu skref í flóknum aðstæðum. Ég lít svo á að ég hafi lokið þeim verkefnum sem ég var kölluð til tímabundið sem forstjóri og þau tvö skilyrði sem ég tel nauðsynleg verkefni fram á við séu nú komin í höfn.“ 
 

Þá sendi SÍBS einnig frá sér tilkynningu í dag þar sem stjórnin óski eftir því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra taki þátt í að skipa sérstaka starfsstjórn til að stýra Reykjalundi á meðan það er unnið að því að aðgreina reksturinn frá SÍBS. 

„Markmið samtakanna er að vinna að viðeigandi forvörnum hverju sinni sem snúa að heilsu og bættu lífi landsmanna. Þá er æskilegt, að mati stjórnar SÍBS, að framtíðarfyrirkomulag Reykjalundar styðji við nýja endurhæfingarstefnu stjórnvalda sem líta mun dagsins ljós á vormánuðum.“

Hringbraut hefur reynt ítrekað að ná sambandi við Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, vegna málsins í nokkrar vikur með símtölum, tölvupósti og jafnvel heimsóknum í höfuðstöðvar SÍBS. Þá neitar Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS að ræða við Hringbraut vegna málsins.