Heppnasti maður í heimi

Íslendingurinn sem féll 20 metra á Table fjalli í Höfðaborg í Suður Afríku er líklega heppnasti maður í heimi að sögn Roy van Schoor, yfirmanns hjá björgunarsveit þar í borg. Hann segir nokkurn veginn allt hafa fallið með Íslendingnum. RÚV.is greinir frá.

„Neyðaróp hans heyrist niður í úthverfi borgarinnar vegna hagstæðra vinda og hann lendir á lítilli klettasyllu sem er ekki stærri en tvíbreitt rúm. Ótrúlegt en satt slasast hann ekki alvarlega við fallið og björgunarsveitum tekst að ná til hans við mjög erfiðar aðstæður í myrkri. Hann er bókstaflega heppnasti maður í heimi,“ segir van Schoor í útvarpsþættinum CapeTalk í gær.

Van Schoor segir Íslendinginn hafa verið einan á ferð. Þetta sé vaxandi vandamál enda geri erlendir ferðamenn sér ekki grein fyrir þeirri hættu sem fylgi ferð á fjallið. Björgunarsveitin hafi varla undan við að bjarga erlendum ferðamönnum sem lenda í vandræðum á því. „Table-fjall er mjög aðgengilegt enda rétt við borgarmörkin og ferðamenn hika ekki við að fara einir á fjallið. Leiðin niður er hættulegust og við höfum verið að fást við mörg þannig slys að undanförnu.“