Helgi seljan minnist guðjóns vals: „bezt kunni ég að meta einlægni hans og hreinskilni“

„Einhver altryggasti og einlægasti sósíalistinn á Eskifirði er fallinn frá, einn þeirra baráttuglöðu þar í sveit, afbragðs góður félagi og hæfileikaríkur um leið. Honum var alltaf hægt að treysta í hvívetna, enda var Guðjón enginn já-maður, sagði álit sitt hispurslaust og ákveðið á hverju einu, alltaf tilbúinn til rökræðna um þjóðmálin, talsmaður jafnaðar umfram allt.“

\"\"Þetta skrifar Helgi Seljan fyrrverandi þingmaður fyrir Alþýðubandalagið í Morgunblaðið um Guðjón Val Björnsson sem nú er fallinn frá. Helgi Seljan sat á þingi frá 1971 til 1978. Guðjón Valur Björnsson fæddist 3. ágúst 1938 í Seyðisfjarðarhreppi. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Eskifirði 25. maí 2019. Eftirlifandi maki Guðjóns er Auður Valdimarsdóttir frá Eskifirði, f. 1936. Guðjón Valur sat í hreppsnefnd og í bæjarstjórn og átti sæti í fjölda nefnda á vegum Eskifjarðarbæjar. Hann sat í stjórn UMF Austra um árabil og sinnti þar jafnframt formennsku. Hann var formaður sjómannadeildar Verkamannafélagsins Árvakurs frá stofnun þess til ársins 1975. Hann var alla tíð virkur þátttakandi í starfi Alþýðubandalagsins og Vinstri grænna.

Helgi Seljan segir um Guðjón Val: „Eskifjörður var löngum eitt hið bezta athvarf sósíalismans á Austurlandi, svo ekki var verra fyrir þá sem þar voru fyrir að fá til liðs vaskan ungan Seyðfirðing sem festi ráð sitt þar með einni af eðaldætrum staðarins og lét strax til sín taka í straumiðu stjórnmálanna þar og var þar í forystu lengi, s.s. í bæjarstjórn og mörgu öðru ótöldu.

Kennslan varð hans aðalstarf. Með greind sinni, dáðríkum dugnaði og alls konar dýrmætum námskeiðum vann hann sig upp í það að verða aðstoðarskólastjóri og það sem enn meira var um vert, honum fórst kennslan svo vel úr hendi sem frekast mátti verða og varð hinn vinsælasti og vel látinn af nemendum sínum og Eskfirðingum yfirleitt.

Hann var árum saman bæjarfulltrúi og átti sinn ríka þátt í því hversu vel Alþýðubandalaginu farnaðist þar á áhrifaárum hans.

\"\"Hann var svo einn þeirra félaga minna á Austurlandi sem mér þótti vænst um, því atfylgi átti ég þar öruggt og glöggskyggn var hann á samfélagið, ekki aðeins á Eskifirði heldur og á sínum gamla heimastað sem hann unni mjög alla tíð.

Guðjón var einn þeirra sem maður treysti á um trúverðugust svörum það hversu frammistaða manns væri, næmur á hvað eina, reynsla hans og þekking í hvívetna dýrmæt. En bezt kunni ég að meta einlægni hans og hreinskilni, vinátta hans vermdi svo sannarlega og athugasemdir hans komu svo að hinum dýrmætustu

Með Guðjóni er fallinn frá einhver ötulasti og sannasti boðberi félagshyggjunnar á Austurlandi og einn þeirra sem verðskuldar þökk mína allra helzt.“