Helgi magnússon kaupir helmingshlut í fréttablaðinu

Helgi Magnússon fjárfestir hefur keypt helming hlutafjár í Torgi ehf í gegnum félag sitt. Torg ehf á og rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, markadurinn.is og tímaritið Glamour. Fréttablaðið er útbreiddasta dagblað landsins, prentað í 80.000 eintökum sex daga í viku. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.

Helgi hefur meðal annars fjárfest í Marel og Bláa lóninu að undanförnu. Helgi er jafnframt stjórnarformaður Bláa lónsins.

Í tilkynningu segir að það hafi lengi verið stefna Torgs að breikka eigendahópinn og styrkja grunnstoðir blaðsins.

Helgi mun taka sæti í stjórn Torgs ehf. en Ingibjörg Pálmadóttir verður formaður stjórnar félagsins. Á vef Fréttablaðsins segir að Helgi geri ráð fyrir að fleiri komi að eignarhaldi á þessum helmingshlut í Torgi ehf.