Helgi í Góu tjáir sig um morðingja sonar síns - „Það ætti að vera auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“

Helgi í Góu tjáir sig um morðingja sonar síns - „Það ætti að vera auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“

„Ég hef mjög einfalda skoðun á þessu. Það ætti að vera auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Ég hef bara þessa einu skoðun og þetta þyrftu menn þá að vita áður en þeir ákveða að taka líf annarra. Menn sem hafa svona hugsunarhátt þyrftu að geta vitað að ef þeir taka líf annarra þá verði líf þeirra líka tekið.“  Þetta segir Helgi Vilhjálmsson, eða Helgi í Góu eins og landsmenn þekkja hann, í viðtali við DV.  

Sonur Helga, Hannes Þór Helgason, var myrtur árið 2010 í Hafnarfirði. Gunnar Rúnar Sigurþórsson var fljótt grunaður um morðið og var handtekinn stuttu seinna. Gunnar Rúnar var dæmdur í Hæstarétti í sextán ára fangelsi, en héraðsdómur hafði áður dæmt Gunnar Rúnar ósakhæfan. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ásetningur Gunnars Rúnars hafi verið einbeittur þegar hann braust inn á heimilis Hannesar Þórs og stakk hann nítján sinnum með hníf. Gunnar situr ekki lengur í fangelsi, en í dag er hann undir eftirliti Fangelsismálastofnunar. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar vinnur hann í dag í fatasöfnunardeild Rauða Krossins. Hefur það valdið kurr á meðal starfsmanna þar og finnst mörgum mjög óþægilegt að dæmdur morðingi sé að vinna þar.  

Í viðtalinun segir Helgi að morðið á syni sínum hafi verið mjög erfitt fyrir sig og sína fjölskyldu og segir fréttaflutning fjölmiðla vera nauðsynlegan í svona málum.

„Hann drap ekki bara mann, þessi maður sem hann myrti átti ungt barn. Og þetta fór með móður hans, konuna mína, í gröfina. Það sama hefur gerst í öðru morðmáli hér á landi, morðið á syni varð til þess að móðirin missti heilsu og líf. Svona skilur eftir sig sár í allri fjölskyldunni til langframa. Þetta er svo mikill hryllingur að maður getur varla talað um það. Samt er ég hrifinn af því að þið fjölmiðlar sýnið þessu áhuga því fólk áttar sig ekki á því hvað er í gangi. Fréttaflutningur af svona málum er nauðsynlegur.“

Helgi segir einnig að þeir sem fremji svona glæpi ættu að fá það sama í staðinn.

„Þetta var allt ákveðið hjá honum fyrirfram. Sonur minn barðist til síðasta blóðdropa enda var blóð úti um allt. Hann varðist og morðinginn varð taugaveiklaður yfir sjálfsvörninni og dró hann fram í stofu. Ég bara fer ekki ofan af því að þeir sem fremja svona hryllilega glæpi ættu að fá það sama í staðinn.“

Nýjast