Helgi froðufellandi af reiði: óþverri, hasshausar og fordómar

Til stóð að halda námskeið í vopnaburði á Grand Hotel í gær. Af því varð ekki og var European Security Academy (ESA) Iceland úthýst af hótelinu. Stundin fjallaði um fundinn fyrr í vikunni og birti viðtöl við fólk sem ætlaði að nýta sér námskeiðið til að verjast straumi innflytjenda sem hingað koma. Í Stundinni var jafnframt fjallað um Íslensku þjóðfylkinguna. Íslenska þjóðfylkingin vill herta innflytjendalöggjöf og innleiða 48 tíma regluna í málefnum hælisleitenda. Íslenska þjóðfylkingin hafnar sharía-lögum og vill að búrkur, starfsemi moska og kóranskóla verði bönnuð á Íslandi. Í greininni á Stundinni kom einnig fram að Guðmundur Þorleifsson formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar og Helgi Helgason varaformaður eru meðlimir í útibús ESA á Íslandi.

Helgi Helgason fjallaði um greinina á Stundinni í gær. Er Helgi afar ósáttur við greinina og kallar Stundina sorprit, Reyni Traustason stjórnarformann Stundarinnar eiturlyfjasmyglara og blaðamaðurinn sem vann greinina er óþverri að mati Helga. Í samtali við Hringbraut gefur Reynir lítið fyrir upphlaup varaformanns Þjóðfylkingarinnar.

Kallar Reyni eiturlyfjasmyglara

 Helgi byrjar umfjöllun sína á Facebook á þessum orðum: „Stundin: Sorprit í höndum fyrrum eiturlyfjasmyglara. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ég er ekki meðlimur í hóp sem sagður er kynna vopnaburð fyrir Íslendingum í Reykjavík nú um stundir,“ segir Helgi.

Þess má geta að við innleggið á Facebook birti Helgi ljósmynd af Reyni. Þá bætti Helgi við: „Það kemur ef til vill ekki á óvart að öfgafulla sorpritið stundin.is sá sér einhvern akk í því að tengja nafn mitt við þessi samtök sem ég veit hvorki haus né sporð á. Þetta er gert að því að virðist í þeim tilgangi að tengja mig og Íslensku þjóðfylkinguna við ofbeldi en flokkurinn hefur marg oft gefið út yfirlýsingar um að öllu ofbeldi sé hafnað.“ Þá kallar Helgi Reyni eiturlyfjasmyglara.

„Það má rifja upp að stjórnarformaður sorpritsins heitir Reynir Traustason og var hér á árum áður gómaður fyrir að reyna smygla eiturlyfjum til landsins.“

Árið 2005 var Reynir að vinna að heimildarmynd og var með örlítið magn fíkniefna á sér, enn innihaldið var að mestu sápa. Afhenti Reynir sjálfur tollverði efnið en hann vildi með þessu sýna hversu auðvelt það er að smygla eiturlyfjum til landsins. Var Reynir ekki kærður fyrir þetta.

 Ætlar að segja upp Morgunblaðinu

Helgi fer fram á og skorar á blaðamenn á Stundinni að nafn hans verði tekið út úr umfjöluninni og hann beðinn afsökunar. Þá skammast Helgi einnig út í Morgunblaðið sem vann frétt upp úr umfjöllun Stundarinnar. Krafðist Helgi að þar yrði nafn hans einnig tekið út. Ekki var orðið við því og ætlar Helgi því að segja upp áskrift að Morgunblaðinu á morgun.

Helgi lét svo ekki staðar numið. Hann birti ljósmynd af Ölmu Mjöll á Facebook en hún er blaðamaðurinn sem skrifaði greinina á Stundinni. Þar kallaði Helgi Ölmu óþverra og bætti við að hún væri hæfileikalaus listamaður.

Uppistaðan sápa – Ekki kærður

Hringbraut hafði samband við Reyni Traustason stjórnarformann Stundarinnar. Reynir segir:

„Helgi er sú manngerð sem ég vil helst heyra last um mig frá.“

Þá rifjar Reynir upp umrætt eiturlyfjasmygl.

„Til gamans má geta þess að umrætt eiturlyfjasmygl átti sér stað fyrir opnum tjöldum og var til að sýna hve auðvelt væri að smygla efnum til landsins,“ segir Reynir.

Uppistaðan í efninu var sápa og var afhent tollverði í Leifsstöð við komuna til landsins. Reynir var ekki dæmdur líkt og Helgi hélt fram á Facebook-síðu sinni.

Þá segir Reynir að lokum: „Síðast en ekki síst hef ég engin afskipti af ritstjórn Stundarinnar og starfa þar ekki. Er stjórnarformaður og stoltur eigandi að hlut í fjölmiðlinum og ánægður með margverðlaunaða ritstjórn. Hlutverk þeirra er meðal annars að varpa ljósi á orð og athafnir fólks og fyrirbæra sem valda þjóðfélaginu skaða.“