Helga vala: í næstu viku kemur þú til íslands [...] hafið ekki tekið til eftir síðustu veru ykkar hér á landi“

„Í næstu viku kemur þú til Íslands. Þá þurfa þeir sem rödd hafa að nýta sér hana og ákvað ég því að rita nokkur orð um það sem ég vil koma á framfæri við þig í von um að orð mín berist þér.“

Þannig hefst pistill eftir Helgu Völu Helgadóttur þingmanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu. Þar skrifar hún hinum umdeilda varaforseta Bandaríkjanna Mike Pence. Pence er umdeildur og ítrekað komið fram að hann er á móti réttindum hinsegin fólks.

Helga Vala segir: „Í fyrsta lagi vil ég nefna að Ísland hefur heilt yfir staðið framarlega í baráttu fyrir kynjajafnrétti sem og réttindum hinsegin fólks. Það skiptir okkur máli að ríki heimsins virði jafnan rétt fólks, hvaðan sem það kemur og hvernig sem það er. Því vil ég leyfa mér að fordæma hvers kyns skerðingar á rétti hinsegin fólks í heimalandi þínu og brýna fyrir þér að kynna þér betur aðstæður þess. Jafn réttur fólks af öllum stærðum og gerðum, kynhneigð, þjóðerni og kyni skiptir okkur gestgjafa þína máli og vona ég að við náum að opna augu þín örlítið í þeim málum.“

Þá gagnrýnir Helga Vala stefnu Bandarískra stjórnvalda í málefnum flóttamanna en boðað hefur verið frekari hörku gegn fólki sem hefur reynt að flýja frá landamærum Mexíkó yfir til Bandaríkjanna.  Segir Helga Vala að fólk leggi ekki á flótta nema í algjörri neyð og þessi stefna og framkoma því óboðleg með öllu og fjandsamleg litlum börnum og mannskemmandi til framtíðar.  

Þá fjallar Helga Vala um þær fregnir að nú ætli Bandarísk stjórnvöld að auka viðveru sína hér á landi. Helga Vala segir:

„Þykir mér það nokkuð djarft af ykkur þar sem þið hafið jú ekki tekið til eftir síðustu veru ykkar hér á landi. Það ber ekki vott um mikla mannasiði að mæta hingað á ný án þess að hafa gengið svo frá að jörð sé hér óspillt eftir síðustu dvöl ykkar. Á Langanesi, nánar tiltekið á H-2-herstöð ykkar á Heiðarfjalli, hefur komið í ljós að ástand mála er mun verra en áður var talið,“ segir Helga Vala og lýkur pistli sínum á þessum orðum:

„Ný kanadísk rannsókn sýnir að allt svæðið, langt út fyrir úrgangs- og spilliefnahauga ykkar, er mengað hættulegum efnum sem hefur alvarleg áhrif á dýralíf og náttúru. Það er því að lokum algjör grundvallarkrafa að þið hefjist nú þegar handa við tiltekt áður en þið hugleiðið að mæta hingað á nýjan leik. Bið ég íslensk stjórnvöld um að beita sér í þessum efnum.“