Helga vala: ég á mér draum um að sjúklingar þurfi ekki að hugsa að þau hafi ekki efni á læknisþjónustu

Í aðsendum pistli í Morgunblaðinu í dag segir Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, að Ísland ætti að sjá sóma sinn í því að koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu svo þeir veiku þurfi ekki að kvíða því að hafa ekki efni á nauðsynlegri þjónustu. Það sé einfaldlega fráleit staða í velferðarríki.

„Ég á mér draum um samfélag þar sem þau sterku styðja þau veikari. Þar sem við stöndum saman undir grunnþjónustu þannig að þau efnameiri borgi fleiri krónur í samfélagssjóðinn. Þar sem sjúklingar þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu sína umfram það sem þau greiða með sköttum sínum. Draum um að sjúklingar þurfi ekki á neinum tímapunkti að hugsa sem svo að þau hafi ekki efni á því að leita lækninga vegna kostnaðarþátttöku,“ segir Helga Vala.

Hún segir að einhverjum kunni að þykja þetta lágar fjárhæðir. Hámarksgreiðsla fyrir læknisþjónustu er rúmlega 26 þúsund krónur á einstakling á mánuði, sem verður þó aldrei hærri en tæpar 74 þúsund krónur á tólf mánaða tímabili. „En sá sem enga innkomu hefur vegna veikinda sinna, sá sem veikist skyndilega og þarf áfram að standa skil á öllum sínum reikningum heima fyrir, láglaunafólk sem um hver mánaðamót velur hvaða reikning á að greiða svo börnin verði ekki vannærð um miðjan mánuðinn sem og námsmenn eiga ekki þessa fjármuni.“

Þá eru ótaldar greiðslur vegna lyfja. Hámarksgreiðsla vegna nauðsynlegra lyfja er 62 þúsund krónur á einstakling yfir 12 mánaða tímabil. „[F]yrir þann sem ekkert hefur á milli handanna er þetta heilmikill peningur og algjörlega óboðlegt að þurfa að hafa stórkostlegar fjárhagsáhyggjur ofan á alvarleg veikindi.“

Þung greiðslubyrði fyrir ungt fólk sem veikist

Helga Vala tekur dæmi af ungri konu sem greindist á dögunum með alvarlegt krabbamein í annað sinn. Í fjölskyldu hennar eru fjöldi barna sem þarf að sjá fyrir. „Hin unga kona, sem nú hefur lokið töku alls veikindaréttar, hefur frá því í byrjun júlí þurft að greiða á annað hundrað þúsund krónur í heilbrigðisþjónustu og lyf. Á annað hundrað þúsund á tæplega tveimur mánuðum! Hún þarf því að biðla til vina og kunningja um fjárhagsstuðning, svo henni sé þetta gerlegt.“

Helga Vala nefnir einnig dæmi af ungri konu sem er námsmaður í framhaldsskóla og greindist með langvinnan sjúkdóm í byrjun árs. Frá greiningu hefur hún greitt rúmar 100 þúsund krónur. „Þessir fjármunir koma ekki úr digrum sjóðum hennar né á hún nokkurn kost á aukavinnu eða námslánum. Fjölskyldan þarf nú að finna út úr því hvar draga skal saman seglin til að hafa efni á að fá réttar greiningar og lækningar.“

„Mér finnst gott að greiða til samneyslunnar svo þeir sem á þurfa að halda séu ekki settir í þau spor að hafa stórkostlegar fjárhagsáhyggjur ofan á alvarleg veikindi. Ég á mér þann draum að einn dag komi til valda flokkar sem byggjast á jöfnuði og velferð, sem hugsa um það að deila gæðum og létta byrðum af þeim sem eiga erfiðara um vik. Við eigum að sjá sóma okkar í því að koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu svo við getum raunverulega staðið undir nafni sem norrænt velferðarríki,“ segir Helga Vala að lokum.