Helga björg segir vigdísi hafa lagt sig í einelti – eineltis- og áreitnisteymi rannsakar kvartanirnar

Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, hefur kvartað undan framkomu Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, í sinn garð. Helga Björg telur framkomuna flokkast undir einelti og hefur óskað eftir formlegri rannsókn Reykjavíkurborgar. Eineltis- og áreitnisteymi Ráðhúss Reykjavíkur rannsakar nú kvartanirnar.

Vigdísi barst tæplega 100 blaðsíðna erindi vegna málsins í gærkvöldi en gefur lítið fyrir kvartanirnar. „Ég veit ekki leng­ur hvernig einelti geng­ur fyr­ir sig,“ segir hún í samtali við Mbl.is. Í erindinu er að finna skjáskot af um 70 færslum Vigdísar af tveimur Facebook-síðum hennar. „Það er búið að njósna um þess­ar síður,“ bætir Vigdís við.   

Vigdís bendir á að Helga Björg hafi á síðasta ári verið dæmd í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir slæma framkomu í garð undirmanns síns. Í dómi vegna þess máls voru stjórnunarhættir Helgu Bjargar gagnrýndir harðlega og sá dómari sig knúinn til að minna hana á að undirmenn hennar væru ekki „dýr í hringleikahúsi yfirmanna.“ Reykjavíkurborg greiddi stefnanda eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað.

Aðspurð um hvort hún hafi haft einhver orð um Helgu Björgu í færsl­um sín­um á Facebook seg­ist Vig­dís ein­göngu hafa vísað í dómsorð héraðsdóms í máli Helgu Bjargar.

Í erindinu kemur einnig fram að Helga Björg segist ekki hafa hitt Vigdísi oft en að Vigdís hafi samt sem áður lagt sig í einelti. Vigdís segir að Helga Björg sé haldin þráhyggju. „Þetta snýst um þráhyggju emb­ætt­is­manns í minn garð,“ segir Vigdís og bætir við að í málinu hafi hún einungis tekið afstöðu starfsmanns á gólfi gagnvart embættismanni í kerfinu sem hafi gerst brotlegur við undirmann sinn.